Á dag flytur litla fjölskyldan aftur heim á Mánagötuna eftir rúmlega viku útlegð. Múrarinn og málarinn hafa lokið sér af og maður er loksins farinn að trúa því að þessum framkvæmdum muni ljúka. Innréttingin kemur vonandi innan tíðar og þá getur smiðurinn tekið til starfa ásamt píparanum og rafvirkjanum. Dúkaravinnan og flísalagningin fá að bíða eitthvað.
# # # # # # # # # # # # #
Á gær sigraði Luton lið Leicester á útivelli, 0:2 og er í öðru til sjötta sæti. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með framförum þessa liðs síðustu misserin. Veturinn 2001-2002 lék Luton í neðstu deild, núna erum við á góðu róli tveimur deildum ofar. Þetta hafa menn afrekað þrátt fyrir að eiga sáralitla fjármuni, byggja á litlum leikmannahópi og spila á velli sem er hálfgert greni. Enginn lætur sér í raun dreyma um að við förum upp í úrvalsdeildina næsta vor. Markmiðið er hins vegar að sigla lygnan sjó í deildinni, styrkja fjárhaginn og byrja framkvæmdir við nýjan völl. Eftir 2-3 ár er svo aldrei að vita nema við náum góðu tímabili og komumst í umspil…
Hinn klúbburinn minn á Bretlandseyjum, Hearts frá Edinborg, er ekki síður í eldlínunni. Liðið er sem stendur í efsta sæti skosku deildarinnar með fullt hús stiga eftir fimm umferðir. Þessi byrjun hefur þegar vakið mikla athygli og menn spyrja sig hvort mögulegt sé að rjúfa einokun Celtic og Rangers í Skotlandi. Það væri saga til næsta bæjar.
Öfugt við Luton, má skýra velgengndi Hearts núna með peningum. Vellríkir Litháar keyptu félagið og hafa sett í það stórfé. Mennirnir eru mafíósalegir í meira lagi, en stuðningsmönnunum virðist sama um það meðan árangur næst á vellinum.