Á kvöld var ætlunin að baða barnið. Til þessa hefur gríslingnum verið dýft ofan í þartilgerða setlaug sem Jóhanna færði okkur í vöggugjöf. Nú er Ólína víst orðin of stór fyrir þann bala. Síðast þegar hún var böðuð fóru þær mæðgur saman í bað heima hjá gömlu. Nú átti að bæta um betur og eitt forláta vaskafat frá Rúmfatalagernum var eyrnamerkt í verkefnið.
Nema hvað – Rúmfatalagers-balinn reyndist of grunnur og í fátinu, þar sem ég reyndi seint og illa að loka baðherbergisglugganum, stakkst barnið á bólakaf. Annar eins grátur og svikabrigsl hafa ekki heyrst. Á fyrsta skipti á ævinni (ef fæðingin er undanskilin) uppilifði grísinn ótta – hræðslu um að foreldrar sínir myndu drepa sig. Það var ekki lítill grátur sem sefaðist ekki fyrr en eftir langan, langan tíma.
# # # # # # # # # # # # #
Á hádeginu vann Luton gestina frá Millwall með tveimur mörkum gegn einu. Við erum nú í 2.-3. sæti í deildinni – þótt vissulega sé alltof lítið búið til að hægt sé að álykta eitt né neitt.
Eftir stendur að ég verð að komast út á leik – helst strax í vor. Oft var þörf, en nú er nauðsyn!
# # # # # # # # # # # # #
Steinunn er í miðju MS-kasti og líður mjög illa. Hún hefur nánast ekkert jafnvægisskyn og þorir varla að lyfta stelpunni milli staða, hvað þá fara um með hana. Upp á síðkastið höfum við því treyst á hjálp fjölskyldunnar, sem hefur varið ómældum tíma í að létta undir með okkur.
Það er ekkert eins erfitt og að horfa upp á þá sem maður elskar líða illa.
Steinunni finnst hún vera byrði og áfellist sjálfa sig fyrir að vera ekki hressari. Ekkert er fjær sanni! Dugnaðurinn sem ég er búinn að horfa upp á síðustu vikur og mánuði er slíkur að hver alheilbrigð manneskja mætti vera stolt af. Steinunn er langflottust!