Kjartan Magnússon vill reisa styttu af Tómasi Guðmundssyni í Reykjavík. Skyndilega er þetta orðið hápólitískt og tengist jafnréttismálum. Staðhæft hefur verið að það sé bara ein stytta af nafngreindri íslenskri konu í Reykjavík (á móti 28 eða 29 körlum). Það mun vera myndin af Björgu Þorláksson fyrir framan Odda á Háskólasvæðinu.
Ég hafna þessu og tel að það sé engin stytta af nafngreindri konu í bænum. Að mínu mati er brjóstmynd ekki stytta. Mér finnst að stytta þurfi að sýna viðkomandi frá toppi til táar (eða amk. niður að hnjám eins og styttan af Héðni Valdimarssyni við Hringbraut).
Ef brjóstmyndir eru flokkaðar sem styttur, hvers vegna ekki lágmyndir? Og hví þá að telja bara brjóstmyndir sem eru utandyra en ekki hinar ótalmörgu brjóstmyndir sem finna má innanhúss – þær eru margfalt fleiri en sá styttufjöldi sem hefur verið í umræðunni upp á síðkastið og í þeim hópi eru einhverjar konur.
Kjartan Magnússon vill styttu af Tómasi. Honum nægir ekki að gamla brjóstmyndin sé tekin upp úr geymslu og sett á fjölfarinn stað – enda notast hann við sömu skilgreiningu og ég.
Annars eru hefðbundnar styttur af nafngreindum mönnum mjög á undanhaldi. Það er óralangt síðan slík stytta var síðast sett upp í Reykjavík. Sú var reyndar afar óvenjuleg, því hún sýndi mann sem var sprelllifandi þá – og er enn á lífi. Og nú er spurt: hver er maðurinn/styttan?