Hver er hvimleiðasti frasi okkar tíma? Ég sting upp á eftirlætisfrasa allra nútímalegra stjórnmálamanna:
Ég trúi ekki á boð og bönn – hins vegar er mjög mikilvægt að setja ALMENNAR LEIKREGLUR…
Hvað eru leikreglur annað en boð og bönn? Leikreglur – hvort sem er í fótbolta eða viðskiptalífi – eru samansafn af fyrirmælum um hvað megi og hvað megi ekki. Að gera greinarmun á boðum og bönnum annars vegar, en leikreglum hins vegar er því INNIHALDSLAUS KLISJA.
Mikið væri gaman ef Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra tækist að fara í gegnum eitt viðtal án þess að grípa til þessarar klisju.
# # # # # # # # # # # # #
Um helgina gerðu Celtic og Hearts jafntefli í Glasgow. Hearts er því enn á toppnum og það þrátt fyrir að vera búið að mæta báðum Glasgow-liðunum einu sinni það sem af er tímabili. Menn eru því í raun og veru farnir að gæla við að Edinborgar-liðinu takist að rjúfa einokun risanna tveggja.
Auðkýfingurinn frá Litháen sem dælt hefur peningum í Hearts-liðið hefur hins vegar ákveðið að jinxa félagið með því að mæta í viðtal og lofa Evrópumeistaratitli. Hann stefnir á sigur í Meistaradeildinni og telur það raunhæft markmið eftir svona þrjú ár.
Þetta er koss dauðans eins og allir íþróttaáhugamenn vita. Upp í hugann kemur viðtalið fræga við Jón Hjaltalín Magnússon þegar hann tók við Víkingum á ný eftir formennskuna í HSÁ og sagði markmiðið vera Evrópumeistaratitil í handknattleik innan fimm ára. Á kjölfarið hófst frjálst fall Víkings sem ekki hefur borið sitt barr í íþróttinni síðan.
Formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks sagði nýverið að markmiðið væri Evrópumeistaratitill kvenna á næsta ári – nokkuð sem telja má hlálegt í ljósi 19:2 taps Valsstúlkna gegn þýsku liði í ár. Ætli Blikarnir hrynji ekki í framhaldi af þessu?
Og nú hefur herra Romanov, eigandi Hearts ákveðið að jinxa liðið með því að daðra við Evróputitil. Ætla menn aldrei að læra?
# # # # # # # # # # # # #
Llion hefur bókað flug til Íslands mánudagskvöldið 31. okt. og fer aftur fimmtudaginn 3. nóv. Veit ekki alveg hversu líflegt næturlífið verður í borginni á þriðjudags og miðvikudagskvöldi – þótt í byrjun mánaðar sé. Spurning hvert vænlegast verði að fara með manninn?