Horfði á Deportivo leika sér að Real Madrid í kvöld. Úff hvað þetta milljónalið getur verið slappt í vörninni. Ég er samt ekki að ná því að detta oní spænska boltann. Of mikið af kvöldleikjum um helgar. Það er ekki alveg tíminn fyrir fótboltagláp hér á Mánagötunni.
# # # # # # # # # # # # #
ítum núðlur í kvöldmatinn frá Nings í Hagkaupum í Kringlunni. Það var neyðarbrauð, því ég mætti á svæðið með það í hyggju að raða í einhvern plastbakka úr salatbarnum sem mun vera einhver sá stærsti og veglegasti í íslensku súpermarkaði, ef marka má auglýsingarnar.
Þegar að salatbarnum var komið féllust mér hins vegar hendur. Veturinn 2001-02, þegar við Steinunn vorum að draga okkur saman, gripum við nefnilega fáránlega oft til þess ráðs að bjarga kvöldmatnum með því að henda hvítlauksbrauði í ofninn, sjóða egg og kaupa salatbakka í Nóatúni. Eftir þann vetur fengum við bæði svo magnað ógeð á þessum krásum að við höfum enn ekki beðið þess bætur.
# # # # # # # # # # # # #
Leit við í Friðarhúsinu undir kvöldmatarleytið. Þar stóð yfir húsfundur þar sem rætt var um meinta silfurskottuplágu í húsinu. Sumir eru ofsóttir af þessum kvikindum, en aðrir hafa aldrei séð þau. Að eitra eða umbera, það er efinn…
Næsta skref í húsnæðisframkvæmdunum verður uppsetning á eldhúskrók. Það er útlit fyrir að dagsetning opnunarhátíðarinnar, 5. nóvember, standist með glæsibrag.
# # # # # # # # # # # # #
Á gær fékk ég endurskoðunarmiða á bílinn. Eitthvað ólag á bremsunum, líklega stífluð dæla sagði skoðanamaðurinn. Aldrei gaman að fá endurskoðun, en þó skárra að það sé út af raunverulegum vandamálum en ekki smámunum eins og rúðuþurrkum, ljósum yfir númeraplötu og þess háttar. Það er ömurlegt að fá ekki skoðun út á þess háttar smotterí.
# # # # # # # # # # # # #
Vinnudagurinn fór að mestu í að lesa amerískt vefsvæði um hvernig skuli kenna – eða öllu heldur ekki kenna börnum um rafmagnsfræði. Þetta er gríðarlega fróðlegt allt saman, en því miður er höfundurinn duglegri við að skjóta niður myndlíkingar og framsetningu á borð við þá sem flestir kennarar nota en að útskýra hvernig betur mætti gera.
Aðalvandinn felst þó í því hversu ófullkomið hugtakið „rafmagn“ er. Við notum þetta orð í ótal ólíkum merkingum, sem geta stangast á innbyrðis.
Geri ráð fyrir nokkrum dögum til viðbótar í þessar stúdíur.
# # # # # # # # # # # # #
Van de Graaf-hraðallinn minn er ennþá í lamasessi. Það kviknar á honum, en hann hleður sig ekki svo neinu nemi – samt er ég búinn að skipta um nælonreim í honum. Þetta er gríðarlega frústrerandi…
Einhverjar uppástungur hvernig ég gæti komið gallagripnum í lag?