Ef hægt er að ganga að nokkrum hlut vísum í breskum æsifréttablöðum á borð við The Sun (fyrir utan myndir af léttklæddum stelpum og 1-2 fréttum af Beckham) þá eru það fregnir af ólöglegum innflytjendum sem fái skrilljónir í bætur frá ríkinu, vinni á svörtu og stundi hvers kyns óknytti og smáglæpi. Á bland við þetta koma svo sögur af tukthúslimum sem lifa eins og greifar, meðan gamlar stríðhetjur eða -ekkjur lepja dauðann úr skel.
Fæstar þessara frásagna eru í nokkrum tengslum við veruleikann. Því fer fjarri að ólöglegir innflytjendur séu á grænni grein meðan mál þeirra bíða afgreiðslu. Þvert á móti eru kjör þeirra kröpp.
Þegar almenningur í Bretlandi er spurður hversu háar greiðslurnar séu til ýmissa hópa á borð við innflytjendur sem bíða afgreiðslu sinna mála, kemur í ljós að þorri fólks telur þær margfalt hærri en þær eru í raun. Sömuleiðis telur fólk að fjöldi þeirra sem nýtur bóta sé margfaldur á við það sem í raun er.
Ótrúlega margir Bretar telja sig þekkja dæmi um fólk sem misnotar kerfið. Þegar nánar er spurt út í þessi dæmi kemur reyndar í ljós að þau eru ekki frá fyrstu hendi. Það reynist alltaf vera „nágranni frænda konunnar“ eða „kunningi vinar vinnufélagans“ sem á í hlut. Með öðrum orðum: enginn efast um að tilvist svikahrappanna sem maki krókinn á sósíalnum – á sama hátt og allir í New Orleans höfðu öruggar heimildir um nauðganir og morð í ringulreiðinni eftir fellibylinn mikla… sögur sem þó reyndist ómögulegt að sannreyna þegar allt var um garð gengið.
Blessunarlega þykja dylgjur og flökkusagnir af þessu tagi sjaldnast tækar í því sem á teljast vitræn pólitísk umræða. Ein undantekning frá því er þegar talið berst að örykjum og kjörum þeirra. Þá virðist sjálfsagt og eðlilegt að gaspra um mágkonu systur blaðberans eða bekkjarbróður sonar mannsins sem maður hittir stundum í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni…
Endalaust heyrir maður sögur af fólki sem á að hafa komist í álnir eftir heppilegt örorkumat. Þetta lið á svo að fitna eins og púkinn á fjósbitanum – ýmist liggjandi í leti eða skóflandi inn svörtum tekjum. Ólyginn sagði mér…
Egill Helgason hefur heyrt sögur eins og aðrir og á bloggsíðunni sinni rekur hann þær. Tökum dæmi:
Sjálfur veit ég um fjölskyldur þar sem er hefð fyrir því að fólk fari á bætur undireins og það kemst að, kynslóð eftir kynslóð. Það er beinlínis félagslegur þrýstingur á einstaklingana að verða sér úti um örorku.
Eftir þáttinn í gær var mér svo sagt sagt af öðrum mönnum sem tókst að ljúga sig inn í sýstemið; einhver veikindi gátu þeir gert sér upp, en í rauninni voru þeir voru óvinnufærir af því þeir reyktu svo mikið hass.
Er þetta tækt? Myndu menn skrifa í svona dylgju- og flökkusagnastíl um aðra þjóðfélagshópa? Bændur, sjómenn, bankastarfsmenn, Vestfirðinga, fólk af pólskum uppruna, kaþólikka, rjúpnaskyttur, leikara og frímúrara? – Vonandi ekki.
# # # # # # # # # # # # #
Nú er mikið skrifað um Rosu Parks og afrek hennar þegar hún neitaði að færa sig í strætisvagninum. Skyldi enginn hafa gert neitt í því að reyna að hafa upp á skúnknum sem heimtaði sætið hennar?