Félagi Llion lendir í Keflavík laust fyrir klukkan ellefu í kvöld. Til að vera góður gestgjafi tek ég nokkra frídaga í að rúnta í sundlaugar, að Reykjanesvita o.þ.h. Skemmtanalífið í Reykjavík á miðvikudagskvöldi mun vonandi sannfæra okkar mann um að ég búi í París norðursins.
Hvað gerir maður annars við túrista í byrjun nóvember?
# # # # # # # # # # # # #
Síðustu daga hef ég verið að glugga í sagnfræðirit sem ekki hefur farið hátt. Það er greinasafn sem Landsvirkjun gaf út um sögu sína í ritstjórn Sigrúnar Pálsdóttur. Hafði hugsað mér að skrifa ítarlega færslu um ritið, en sé ekki fram á að koma því í verk. Nokkur atriði vil ég þó segja:
* Á fyrsta lagi er frábært að fyrirtæki eins og Landsvirkjun gefi út bók sem þessa. Hér er nefnilega ekki um viðhafnarútgáfu að ræða, þar sem hugsunin er að gefa út myndabók þar sem sjá má alla stjóra og stjórnarmenn og sem starfsmenn fá gefins á afmælum. Þess í stað er þetta fræðileg bók sem hefur fyrst og fremst gildi fyrir sagnfræðinga og áhugamenn um sagnfræði. Landsvirkjun fær plús í kladdann.
* Gallinn við útgáfur bóka að þessu tagi (það er, sem gefnar eru út af fyrirtækjum og stofnunum) er sá að útgefandinn hefur í raun lítinn hvata til kynningar. Útgáfan er ekki fjármögnuð með lausasölu heldur með fjárveitingu viðkomandi stjórnar. Fyrir vikið er eftirfylgnin oft lítil – enda lýkur störfum ritstjórans daginn sem bókin kemur úr prentun.
* Æskilegt hefði verið að samræma greinarnar í ritinu aðeins betur. Höfundarnir hafa greinilega samið hver í sínu horni og fyrir vikið verður nokkuð um endurtekningar, þar sem flestallir sjá ástæðu til að hlaupa á hundavaði yfir rafvæðingarsöguna fyrstu áratugina. Einu sinni hefði verið nóg.
* Nokkur dæmi um ónákvæmni eða hreinar staðreyndavillur er að finna, en þær skipta ekki máli fyrir röksemdafærslu í viðkomandi greinum heldur fljóta með eins og í framhjáhlaupi.
* Grein Skúla Sigurðssonar ber af í ritinu, enda sú eina sem virkilega varpar nýju ljósi á viðfangsefnið (með fullri virðingu fyrir öðrum greinum sem flestar eru ágætar). TIlhneigingin í orkusöfurituninni hefur verið að einblína á auðlindirnar: hvaða fossa hafi verið unnt að virkja, hvenær þeir hafi verið keyptir og hverjir hafi stungið upp á einstökum virkjunarútfærslum. Skúli snýr þessu við. Hann bendir á að uppbyggingu orkukerfisins verði að skoða í ljósi byggðaþróunar og samfélagsbreytinga í bæjum. Rafvæðingin hafi gerst á heimilum og í fyrirtækjum – sjálfar virkjanirnar hafi bara verið tæknileg útfærsla á raforkuframleiðslu til að mæta þessari rafvæðingu. (Fyrir utan að Skúli myndi aldrei nota jafngallað hugtak og rafvæðing…)
# # # # # # # # # # # # #
Luton lafir enn í þriðja sætinu, en hefur tapað tveimur af síðustu þremur leikjum og þeim báðum gegn slökum andstæðingum. Á þriðjudaginn er að duga eða drepast, því þá mætum við Sheffield United – sem virðist vera langbesta lið deildarinnar. Smæð leikmannahópsins gæti verið að koma okkur í koll.
# # # # # # # # # # # # #
Friðarvefurinn fær senn yfirhalningu. Meira um það á morgun.