Þegar Wales-verjinn Llion var í heimsókn á skerinu fyrir skömmu, gerðum við Steinunn okkar besta til að koma ofan í hann íslenskum mat. Hann var t.d. látinn borða súkkulaðisnúð með kaldri mjólk, pulsu frá Bæjarins bestu og flatbrauð með hangikjöti.
Allt þótti honum þetta harla bragðsgott, en fannst samt eitthvað vanta upp á flatbrauðið. Vatt hann sér þvínæst í ísskápinn og sótti flösku af sinnepi. Við misstum náttúrlega andlitið og bentum honum á að líklega væru einhver lög á Íslandi sem bönnuðu mönnum að éta hangikjöt með þessum hætti. Hann glotti bara og hélt áfram að smjatta á flatbrauðinu.
En nú er bara spurningin – er þetta kannski leiðin til að fullkomna þann ágæta mat, flatbrauð með hangikjöti? Ætti maður að brjóta odd af oflæti sínu og fást til að prufa? Það er samt eitthvað svo ónáttúrulegt við tilhugsunina…