2005 er líklega viðburðaríkasta ár lífs míns.
Þegar Ólína fæddist á vormánuðum breyttist allt. Raunar breyttist svo margt að ég á erfitt með að rifja upp hvernig málum var háttað fyrir þann tíma. Það hefur sömuleiðis verið frábært að fylgjast með þessu litla kríli vaxa síðustu átta mánuðina. Nú síðast er hún búin að læra að skríða áfram og er þegar farin að sýna ævisögum sérstakan áhuga, jafnt ævisögum Bubba, Kára Stefánssonar og Steingríms Hermannssonar.
2005 var líka ár missis. Á haust dóu bæði afi og Óli Guðmunds, vinur minn og vinnufélagi. Afi varð rétt tæplega áttræður, en Óli ekki nema um sextugt og hefði átt að eiga tuttugu góð ár til viðbótar.
Fráfall Óla og veikindi hans mánuðina þar á undan tóku sinn toll á vinnustaðnum. Skarð hans þar verður vandfyllt.
Til hliðar við vinnuna á safninu kom ég ýmsu í verk. Á vormisseri kenndi ég við Háskólann í fyrsta sinn, samhliða því að sjá um spurningakeppni framhaldsskólanna. Um haustið samdi ég spurningar fyrir fótboltaspil og sá um sjónvarpsþætti í tengslum við það.
Eins og svo oft áður sat sagnfræðin nokkuð á hakanum hjá mér í ár. Engu að síður flutti ég nokkra fyrirlestra, t.d. hjá Verkfræðingafélaginu og Sagnfræðingafélaginu.
Á félagsstörfunum fór mesta orkan í Samtök herstöðvaandstæðinga, þar sem stærsta viðfangsefnið var kaup á nýju húsnæði. Sá langþráði draumur rættist á haustmánuðum.
Af öð’rum félagsmálum mætti nefna stjórnarsetu í FRAM, kjörstjórnar- og uppstillingarnefndarvinnu hjá Vinstri grænum og smáverkefni í tengslum við MS-félagið.
Eins og sést af þessari upptalningu hefur verið nóg að gera. Stundum kannski of mikið. Á það heila tekið er þetta ekki bara viðburðaríkasta árið, heldur líka það ánægjulegasta.
Það er nú svo.