Ég hafði spáð tíðindalitlu kvöldi í Gettu betur, en reyndist ekki spámannlega vaxinn. íður en lengra er haldið er rétt að ég biðji Garðbæinga afsökunar á að hafa afskrifað þá fyrirfram. Það er blóðugt fyrir FG-liðið að sitja eftir með 27 stig, næsthæsta stigaskorið í ár.
MS-ingar eru alvöru lið. Með hæsta stigaskorið í báðum umferðum (enn sem komið er) hafa þeir stimplað sig inn í baráttuna um titilinn. Kannski lykillinn að velgengninni sé sá að MS-ingar hafa verið tíðir gestir á Friðarpípunni, spurningakeppni herstöðvaandstæðinga – það skyldi þó ekki vera…
Borghyltingar máttu hafa fyrir sigrinum gegn frískum Laugalimum. Með sigri Borgó varð ljóst að amk. tvær stelpur komast í sjónvarpið. Kynjahlutfallið í sjónvarpshluta GB virðist vera fasti – síðustu fimmtán árin eru stelpurnar þar yfirleitt tvær, þrjár þegar best lætur. Þetta er auðvitað ekki nógu gott.
Ég þykist vita að markmið Borghyltinga hafi verið að komast í sjónvarp. Þeir eru að byggja upp lið til framtíðar og því var gríðarlega mikilvægt fyrir skólann að detta ekki út í útvarpinu. Hins vegar sé ég liðið ekki komast upp úr fjórðungsúrslitunum að óbreyttu.
MR-ingar gerðu það sem þurfti í sinni keppni. Fyrir tímabilið hélt ég að MR yrði langbest og ynni titilinn fyrirhafnarlaust. Núna er ég farinn að efast. Greinilegt er að þetta eru eldklárir strákar, en einhvernveginn fær maður á tilfinninguna að þeir hafi slæmar gloppur. Það er veikleikamerki að liðið fari í kerfi þegar talið berst að rokk- og popptónlist. Síðustu árin hefur vægi „bleika flokksins“ (svo notað sé Trivial Pursuit-orðalag) farið vaxandi í GB. Ef Anna Kristín heldur áfram á þeirri braut, gæti það komið MR í verulegt klandur.
* * *
Ein hugleiðing varðandi keppnina almennt:
Það er alltaf vandmeðfarið hvernig meðhöndla skal „staðbundnar“ spurningar – þar sem búseta annars liðsins getur veitt því forskot. Fram hjá því verður ekki litið að þegar skólar frá ólíkum landssvæðum keppa geta einstakar spurningar verið öðru liðinu hagstæðari.
Allir hljóta að vera sammála um að það væri á gráu svæði að spyrja um myndastyttur eða útilistaverk í 101 þar sem MR eða Kvennó væru að keppa við ísafjörð eða Vestmannaeyjar. En hvar liggja mörkin? Væri í lagi að spyrja á þennan hátt ef andstæðingarnir væru frá höfuðborgarsvæðinu – FB eða Flensborg? Jú, líklega myndi það sleppa.
Ég stóð margoft frammi fyrir spurningum sem þessum. Þannig man ég eftir miklum umræðum á undirbúningsfundi fyrir keppni með ME um hvort rétt væri að spyrja um listmálarann Tryggva Ólafsson, sem er frá Neskaupstað. Ekki man ég hver niðurstaðan varð í því máli.
Á sama hátt velti ég því fyrir mér hvort rétt væri að spyrja um Meistarann og Margarítu í keppni MK og Hafnar í Hornafirði, en á sama tíma var verið að sýna leikrit byggt á bókinni í Hafnarfjarðarleikhúsinu. (Síðar kom í ljós, sem ég gat að sjálfsögðu ekki vitað, að einn keppenda MK kom að flutningi tónlistarinnar í verkinu.) Gott ef sú spurning fór ekki nærri því að ráða úrslitum.
Á tengslum við það má spyrja sig hvort réttmætt sé að spyrja út í leiksýningar sem eru á fjölunum í Reykjavík þegar lið frá höfuðborgarsvæðinu keppa við landsbyggðarlið? Ég er á báðum áttum í því efni. (Þótt mín reynsla sé reyndar sú að landsbyggðarfólk sé duglegra við að fara í leikhús í Reykjavík en Reykvíkingar sjálfir.)
Á keppni Akraness og Hornfirðinga í fyrstu umferðinni, var spurt í hvaða flokki Anna Kristín Samfylkingarþingkona væri. Merkilegt nokk vissu Skagamenn ekki svarið og Hornfirðingar stálu stiginu. Þar slapp dómarinn með skrekkinn, enda óheppilegt að spyrja um þingmann úr kjördæmi annars skólans.
Eins hefði ég sleppt því að spyrja út í örnefni á Esjunni í keppni Borgarholtsskóla, sem er nánast í Esjurótum og Þingeyinga. En hér er vissulega úr vöndu að ráða og auðvitað er útilokað að elta uppi allar slíkar tengingar.
* * *
Á morgun verða tvær áhugaverðar keppnir. Með fullri virðingu fyrir liðunum sem þar keppa tel ég sýnt að sigurliðin þar verði jafnframt þau tvö lökustu í sjónvarpinu.
Um daginn spáði ég Flensborg auðveldum sigri á Höfn í Hornafirði. Eftir á að hyggja er ég ekki viss um að það sé rétt mat. Mér þykir vænt um Hornfirðinga, enda áttu þeir á sínum tíma stóran þátt í að okkur Bigga og Gvendi tókst að sigra í GB á sínum tíma. Takist Hornfirðingum að komast í sjónvarpið ber RÚV siðferðisleg skylda til að sjónvarpa þaðan í næstu umferð!
Ég hef ekki hugmynd um hvort Selfyssingar eða Sauðkrækingar séu sterkari. Sigurliðið verður líklega fallbyssufóður í fjórðungsúrslitum – því miður. Ég man reyndar að það var stelpa í Sauðárkróksliðinu, en ég man ekki hvort nokkur slík var í liði Selfoss – svo ég hallast að því að halda með Króknum (auk þess sem ég vann þar eitt sumar).