Jæja, enn einn afmælisdagurinn að baki. Ég, Stebbi Hagalín, Geir Haarde og Búdda höfðum allir ástæðu til að gleðjast í gær.
Hagalín og Vala kona kona hans litu raunar í stutta heimsókn undir miðnættið. Við hefðum látið þau stoppa lengur ef húsið hefði ekki verið fullt af næturgestum. Tengdapabbi, Helga og Magnea gistu nefnilega hjá okkur tvær síðustu næturnar í Reykjavíkurheimsókninni en héldu austur í morgunsárið.
Meðan á dvöl þeirra stóð handsöluðum við samkomulag um að Magnea ráði sig til okkar hluta úr sumrinu – líklega upp úr miðjum júní – til að passa Ólínu. Það verður því ekki umflúið mikið lengur að ryðja til í gestaherberginu og breyta því í mannabústað.
# # # # # # # # # # # # #
Eina fermingarveisla ársins í famelíunni var í gær. Þorgrímur frændi fermdist og hélt veislu í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Við færðum honum Vísindabyltinguna eftir Andra Steinþór Björnsson að gjöf – það er tilvalin gjöf fyrir svona tilefni.
Sá í safnaðarheimilinu teikningar að fyrirhugðu nýju heimili gegnt listasafninu. Það er ótrúlegt að sjá þá breytingu sem orðið hefur á svæðinu milli kirkjunnar og Hamraborgarinnar. Með því að byggja yfir Peningagjánna virðist Kópavogsbúum ætla að takast að eignast almennilegan miðbæ. Eflaust munu áhugamenn um að hlutar Miklubrautar (og annarra stórumferðagatna) verði lagðir í stokk benda á þessa framkvæmd máli sínu til stuðnings.
# # # # # # # # # # # # #
Vegna fermingarveislunnar komst ég ekki á leik FRAM og íR í handboltanum, sem kom ekki að sök enda rótburstuðu FRAMarar Breiðhyltinga. Fátt er leiðinlegra á að horfa en ójafn handboltaleikur.
Spennan í Íslandsmótinu heldur því áfram. Eftir hálfan mánuð mætast FRAM og HK í Kópavogi. Þar má maður ekki láta sig vanta.
# # # # # # # # # # # # #
Luton gerði jafntefli við erkióvinina í Watford í morgun. Leikurinn var hvergi sýndur, sem er synd og skömm. Með jafnteflinu eyðilögðum við nær endanlega vonir Watford-manna um að komast beint upp. Þá er bara að vona að þeir misstígi sig líka í umspilinu til að við getum mætt þeim á næsta ári líka.
Á skoska boltanum tapaði Hearts fyrir Celtic og er nú ekki með nema þriggja stiga forystu á Rangers í baráttunni um Meistaradeildarsætið. Liðin eiga meira að segja eftir að mætast á Ibrox. Ekki get ég sagt að mér lítist nógu vel á þróun mála.
# # # # # # # # # # # # #
Festi fyrir helgi kaup á miðum á Manchester-tónleika Flugleiða og Gríms Atlasonar í Laugardalshöllinni. Hvernig er það með Echo & the Bunnyman, eru þeir vanir að taka mikið af gömlu lögunum á tónleikum eða má maður eiga von á nýju og óþekktu efni?