Getraun dagsins (gærdagsins) fjallaði sem sagt um fárið í samfélaginu eftir að Lífsbjörg í Norðurhöfum, heimildarmynd Magnúsar Guðmundssonar var sýnd hér á landi um páskana 1989. Myndin gekk út á að Íslendingar væru göfug veiðimannaþjóð í tengslum við náttúruna og að ástæða þess að umhverfisverndarsamtök í útlöndum ömuðust við hvalveiðum okkar væri fjárplógsstarfsemi.
Þegar ég var 13 ára fannst mér þetta frábær mynd. Ég varð svo reiður út í heimsku útlendingana sem voru svo firrtir að skilja ekki nauðsyn þess að skutla hvali. Þegar Guðrún Helgadóttir, þingkona Alþýðubandalagsins, mætti svo í Sjónvarpsumræður og tók undir rök þessara óðu útlendinga varð ég miður mín og taldið einboðið að hún yrði rekin úr flokknum.
Ég man eftir að hafa rifist í heilt kvöld við þann góða dreng Friðrik Atlason sem sá ekki tilganginn í þessum þjóðernisbelgingi út af þremur hvallveiðibátum sem yrðu aldrei hreyfðir. Held að ég hafi aldrei beðið Frikka afsökunar, en auðvitað hafði hann á réttu að standa og ég röngu.
Nú finnst mér hrefnukjöt fínt, hnýsa mjög góð og þetta eina skipti sem ég hef étið höfrung bragðaðist hann ágætlega – en helvítis þjóðremban í kringum þetta hvalamál er nóg til að gera hvern góðan mann að Grænfriðungi.