Ólína er ársgömul. Eins og manni getur fundist tíminn vera fljótur að líða, þá er furðulegt að hugsa til þess að ekki sé lengra síðan hún fæddist. Mér finnst hún alltaf hafa verið til.
Metnaðarfullar áætlanir þess efnis að kenna barninu að ganga fyrir eins árs afmælið gengu ekki eftir. Það vantar þó bara herslumuninn.
Á morgun er blásið til barnaafmælis á Mánagötu. Vonandi fær barnið þar gefins einhverja harðspjaldabók sem hægt er að blaða í fyrir svefninn. Ég sturlast ef ég þarf einu sinni enn að lesa um helvítið hann Andra sem leikur sér að grasmaðki í sandkassanum og fer svo í bað.
# # # # # # # # # # # # #
Herkveðjuhátíðin í Keflavík var fín. Dagskráin var mikil að vöxtum en stórskemmtileg. Rúnar Júlíusson er snillingur.
# # # # # # # # # # # # #
FRAM er einum sigri frá Íslandsmeistaratitli í handbolta. Hver hefði trúað þessu í upphafi móts? Það hefur verið frábært að fylgjast með handboltadeildinni eflast upp á síðkastið. Næsta verkefni hlýtur að vera að koma kvennaliðinu á fyrri stall. Vandin er að FRAM-liðið í kvennaboltanum hefur í mörg ár verið í þeirri stöðu að þykja efnilegt en ná ekki að stíga næsta skref.
Laugardagurinn kemur hefur sem sagt verið tekinn frá fyrir handboltaveislu. Bíð spenntur eftir að heyra hvaða dagskrá verður boðið upp á í Safamýrinni fyrir leik.
# # # # # # # # # # # # #
Sé á heimasíðu Ians Rankins að næsta bók er væntanleg í desember og mun tengjast G8-fundinum í Edinborg. Jæja, maður verður víst að láta sig hafa það að bíða.