Söguþingi er lokið. Ég skemmti mér vel. Nett ættarmótsstemning á þessum samkomum.
Þingveislan á Borginni tókst vel. Ræðan mín virtist mælast vel fyrir og vonandi hefur enginn móðgast yfir bröndurunum. Hópur veislugesta endaði á Rósenberg. Ég sat þar alltof lengi og og drakk alltof mikið. Dagurinn fór því í þynnku.
Það voru færri gestir á Söguþinginu núna en tvö fyrri skiptin. Fyrsta þingið var auðvitað sérstakt og vonlaust að búast við slíkum fjölda núna. Er þó ekki fjarri því að hægt væri að fá fleiri gesti með því að keyra meira á árgangamóts-stemningunni. Þannig mætti ýta undir að hópar sem útskrifuðust á tilteknu árabili myndu hittast í tengslum við þingið. Það eru gríðarlega margir útskrifaðir sagnfræðingar sem ekki starfa beinlínis við fagið, en vilja þó halda í tengslin.
Ég er skíthræddur um að ég hafi lofað að taka að mér allskonar stór verkefni eftir að á barinn var komið. Það var ekki það sem ég þurfti á að halda.
# # # # # # # # # # # # #
Missti af sigurleik FRAM á Leikni á laugardag. Skilst þó að við höfum mátt prísa okkur sæla með stigin þrjú. Það er þó góðs viti að Helgi sé farinn að skora.
# # # # # # # # # # # # #
Getur virkilega verið að tíundi hver Reykvíkingur ætli að kjósa Frjálslynda flokkinn? Hvernig má það vera?
Nú hef ég engan hitt sem ætlar að kjósa Frjálslynda (fyrir utan frambjóðendur og systkini þeirra). Ég þekki fullt af fólki sem ætlar að kjósa hina flokkana – meira að segja slatta af Framsóknarmönnum. En ENGA stuðningsmenn Frjálslyndra… ætti þetta ekki að vera tölfræðilega útilokað?