Fékk Sagnir, tímarit sagnfræðinema inn um lúguna í dag. Blaðið lítur ágætlega út við fyrstu sýn. Á það minnsta eru nokkrar greinar sem ég gæti vel hugsað mér að lesa.
Einhverra hluta vegna er talsverð áhersla á það sem kalla mætti jaðarfyrirbæri í íslenskri stjórnmálasögu, s.s. félög Kúbu- og Albaníuvina. Þetta er reyndar dæmigert fyrir skrif sagnfræðinga um stjórnmálasögu – sagnfræðingar hafa yfirleitt smáflokkadellu. Sagnfræðingar skrifa um grínframboð, einsmálshreyfingar og flokka sem engu flugi náðu – hins vegar leggja þeir sjaldnast í stóru stjórnmálahreyfingarnar, heldur láta þær blaðamönnum og stjórnmálafræðingum eftir.
Á Sögu, tímariti Sögufélags hefur birst í það minnsta ein heillöng grein um Framboðsflokkinn 1971, en ég man ekki eftir einni einustu grein um Sjálftæðisflokkinn. Skrítið.
Sjálfur var ég fenginn til að skrifa ritdóm í þetta tölublað Sagna. Ekki tókst nú betur til en svo við umbrot blaðsins en að athugasemdir prófarkarlesara voru birtar sem aftanmálsgreinar mínar (sem voru raunar kallaðar neðanmálsgreinar). Lesendur munu því væntanlega ekki botna neitt í neinu.
# # # # # # # # # # # # #
Á dag komst ég í að skoða SS-húsið á Kirkjusandi. Það er mögnuð bygging. Fáránlega stór og með ólíkindum að hún sé ekki nýtt af neinu viti.
Með þessu húsi mætti leysa húsnæðisvanda margra safna sem eru á hrakhólum. Mér kemur strax til hugar Náttúrufræðisafnið.
# # # # # # # # # # # # #
Mætti í kvöld með Ólínu í stúdentsveislu Guðmundar Þóris frænda míns. Barnið lak útaf í bílnum á leiðinni heim og fékkst ekki til að vakna fyrir kvöldpelann. Hún mun því væntanlega rífa sig upp eldsnemma eða um miðja nótt, sársvöng og pirruð. Koma tímar, koma ráð.