Sumarið er tíminn, þegar mér þykir best… að vappa um í gula vestinu mínu.
Gula vestið, sem minnir í senn á klæðnað veiðimanna og stöðumælavarða, er uppáhaldsflíkin mín. Aðdáun mín á þessari flík er minnihlutaafstaða. Öllum vinum mínum finnst hún hláleg og ljót. Mamma fær hroll þegar hún sér mig í henni. Steinunn segir ekki neitt – veit kannski að ég yrði bara forhertari ef hún amaðist við vestinu góða.
Frá því að ég var pjakkur hafa flestar uppáhaldsflíkurnar mínar verið yfirhafnir sem talist hafa ljótar að flestra áliti. Á menntó gekk ég löngum í afar óhentugum gráum jakka með vínrauðu fóðri og kraga sem pabbi átti tuttugu árum fyrr. Jakkinn var opinn og tölurnar allar týndar, þannig að ég var meira eða minna kvefaður allan veturinn.
Á gaggó hélt ég mest upp á gamla ílafossúlpu (líka frá pabba). Er ekki fjarri því að hún sé ennþá til heima hjá gömlu.
Skringilegasta úlpa sem ég hef átt, en jafnframt ein sú skemmtilegasta, var flík sem ég gekk alltaf í síðasta árið í Melaskólanum. Það var massív úlpa með miklu ullarfóðri. Hún var hlý og góð í verstu veðrum, en annars var hún alltof heit – og þar sem ég er skelfilega heitfengur gat það orðið mikil raun að klæðast henni.
Einn af helstu kostum þessarar úlpu, var gríðarlegur fjöldi af stórum vösum. Líklega hafa vasarnir og leynihólfin verið hátt á annan tuginn. Á það minnsta einn þeirra var rifinn, þannig að hægt var að smeygja höndinni inn í fóðrið á úlpunni – þetta jók geymslurýmið til mikilla muna.
Einhverra hluta vegna ákvað ég að nýta þessa vasa út í ystu æsar. Ég gekk með ótrúlegasta drasl í vösunum eða innan í fóðrinu. Þannig var ekki óalgengt að ég hefði á mér spilastokk, skeið, áttavita, fjórar golfkúlur, minnisblokk, boxyddara, penna og golftí – svo eitthvað sé nefnt. Auðvitað hafði ég engin not fyrir alla þessa hluti, enda var þetta einkum fyrir kúlið. Eftir á að hyggja minnti úlpan góða á frakkann hans Jerrys í Parker Lewis Can´t Loose-þáttunum. Það voru góðir þættir.
Jamm.
# # # # # # # # # # # # #
Barnið er með magakveisu. Á sunnudagin lýsti hún sér í uppsölum, núna gengur þetta allt niður úr henni. Ljótt, ljótt – sagði fuglinn.