Bretar eiga það til að nota „Mikka músar“-forskeyti um fyrirbæri sem þeir hafa lítið álit á. Mickey Mouse-team væri t.d. eðlilegt skammaryrði um ómerkilegt fótboltalið og Mickey Mouse-competition myndi maður kalla léttvæga bikarkeppni (einkum þegar liðið manns er nýfallið úr henni.)
Þjóðabandalagið, sem starfaði milli heimsstyrjaldanna, hefur fengið fremur aum eftirmæli. Líklega myndu margir freistast til að kalla það Mickey Mouse-organisation. Og það jafnvel réttilega.
Bókstaflega sönnun þessa má finna í Morgunblaðinu 19. júní 1934. Þar segir:
Mickey Mouse, skattfrjáls.
Barnaverndarnefnd Þjóðabandalagsins hefir rætt all-mikið um Mickey Mouse. Mælir nefndin ákveðið með því, að teiknimyndir með Mickey Mouse megi sýna í öllum löndum án skemtanaskatts.
Jahá.
# # # # # # # # # # # # #
Mörg herfileg bílslys nú um helgina. Þrír látnir og fleiri þungt haldnir.
Þessi slys áttu sér öll stað úti á landi. Það ætti raunar ekki að koma á óvart, enda gerist þorri banaslysa í umferðinni á landsbyggðinni. Það er breyting frá því sem var fyrir u.þ.b. þrjátíu árum þegar Reykjavíkurumferðin kostaði stóran hluta mannslífa.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir, skulu alltaf einhverjir verða til að gagnrýna framkvæmdir í vegamálum á landsbyggðinni, afgreiða þær sem kjördæmapot og fara í samanburð á fjárveitingum til vegamála miðað við höfðatölu í Reykjavík og á landsbyggðinni. Samkvæmt þessu viðhorfi er brýnasta viðfangsefnið í samgöngumálum að stytta bið á 10-15 umferðarljósum í bænum.