Jæja, þá styttist í brottför til Belgíu. Óli Jó og Laurence eru að fara að gifta sig. Það er mikið gleðiefni.
Ólína gistir hjá ömmu sinni og afa. Þau munu ekki eiga sjö dagana sæla (fimm dagana í þessu tilviki) – því grísinn klifrar upp um alla veggi. Á morgun klöngraðist hún upp á eldavélina og bjó sig undir að hræra í hafragrautspottinum. Samt er hún ennþá smeyk við þröskulda.
# # # # # # # # # # # # #
Það eru síðustu forvöð fyrir háskólanema að skrá sig í námskeiðið okkar Sverris og Skúla Sigurðssonar. Á námskeiðslýsingu segir: Tekið verður fyrir tímabilið 1900-1925. Þá sáu dagsins ljós fyrirbrigði í vísindum og tækni, og skipulagningu þessara sviða, sem voru mikilvægir aflvakar nývæðingar á 20. öld. Sjónarhornið er alþjóðlegt og íslenskt, vísindasögu- og tæknisögulegt. Lögð verður áhersla á samanburð og greiningu strúktúra. Fjallað verður t.d. um vísindanýjungar á borð við atóm, erfðafræði, geislavirkni, röntgengeisla, rúm og tíma, skammtafræði, háskóla og nýjar rannsóknastofnanir, tölfræði og félagsvísindi, mannfræði og sálfræði, tæknikerfi á sviði orku og samgangna, langdræg rafræn samskiptakerfi, fjöldaframleiðslu og vísindalega stjórnun, heilbrigðishreyfingar og afskipti ríkisins af heilbrigðismálum, borgir og matvælaiðnað, hernað og vísindi.
Kennslufyrirkomulagið verður með þeim hætti að Skúli kennir intensívt fyrstu dagana í september – þar sem verða daglegir fyrirlestrar. Það sem eftir líður misseri kennum við Sverrir saman tíma á fimmtudagseftirmiðdögum. Heimapróf og ritgerð.
# # # # # # # # # # # # #
Á sjónvarpinu í gær eða fyrradag fór fréttamaður fyrir austan á stúfana og spurði fólk hvort umræðan um mögulega veikleika Kárahnjúkastíflu yllu þeim áhyggjum. Flest svörin voruy á sömu leið – að fólk hefði ekki áhyggjur, þar sem „enginn myndi ráðast í svona stóra framkvæmd án þess að allt væri í lagi“.
Fyrir áhugamenn um tæknisögu eru þetta afar áhugaverð viðbrögð. Á gegnum tíðina hefur fólk haft tilhneigingu til að vantreysta stórum mannvirkjum og telja þau óöruggari en minni verk (án þess að það sé endilega tilfellið). Það er hins vegar afar óvenjulegt að stærð verkefnis sé talin trygging fyrir öryggi þess…
# # # # # # # # # # # # #
Ergilegt tap gegn Fjölnismönnum í fyrstu deildinni í kvöld. Við verðum bara að gera betur gegn Þórsurum fyrir norðan um aðra helgi. Þar verður sá er þetta ritar.
# # # # # # # # # # # # #