Belgía var frábær.
Brúðkaupsveislan hjá Óla og Laurence var frábær. Athöfnin var svo sem fróðleg líka. Mér reiknast til að þetta sé þriðja kirkjubrúðkaupið sem ég hef verið viðstaddur á ævinni, yfirleitt mæti ég í veisluna en sleppi kirkjunni. Við Steinunn létum þó eiga sig að þiggja oblátu hjá prestinum – ætli það hefði ekki þurft að vígja húsið upp á nýtt ef heiðingjunum væri veitt sakramenti…
Dagarnir í Bruxelles voru sömuleiðis ljúfir. Aðalmálið var að éta góðan mat og drekka góðan bjór. Þannig litum við varla inn í nokkra verslun. Keyptum eitthvað lítilræði af súkkulaði og leikfang fyrir Ólínu – ekkert annað. Það var óneitanlega skrítið að koma heim án þess að hafa keypt eins og 5-6 bækur.
Belgíski kræklingurinn er góður. Bjórinn er frábær. Drakk hina ýmsustu Trappista auk torkennilegra klausturbjóra. Því miður náði ég hins vegar ekki nema einum Lambik-bjór í allri ferðinni. Það er einhver sérkennilegsti bjór sem til er – með sterku kampavínsmysubragði, sem maður kolfellur fyrir á öðrum sopa.
En þó ferðin hafi verið eins og best var á kosið, hefur aldrei verið eins gaman að koma heim og núna. Eftir að hafa skilið Ólínu eftir hjá afa sínum og ömmu í sex nætur vissum við ekki alveg við hverju mætti búast. Hún varð eiginlega feimin þegar hún sá okkur aftur, en jafnaði sig eftir smátíma og fór að draga fram alls kyns leikföng til að sýna okkur. Það er erfitt að vera lítinn, kunna ekki að tala en hafa frá ýmsu að segja.
Á morgun liggur leiðin á næsta róluvöll. Vinnan byrjar aftur á föstudaginn.
# # # # # # # # # # # # #
Það er mikið skrifað um írna Johnsen. Einhverjir láta það fara í taugarnar á sér að handhafar forsetavalds hafi veitt írna Johnsen uppreisn æru og þar með opnað möguleikann á að hann bjóði sig fram til þings.
Ég er ósammála. Að mínu mati er jákvætt að írna sé gefið færi á því. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að ekki eigi að setja neinar hömlur á kjörgengi manna.
Við höfum dæmi um pólitíska dóma í sögunni, þar sem mönnum var meinað að kjósa og bjóða sig fram vegna stjórnmálaskoðanna. Slík vinnubrögð þekkjast í ýmsum ríkjum enn í dag og eru einatt talin til marks um lágt lýðræðisstig. Öll lög sem skerða kjörgengi einstaklinga bjóða þessari hættu heim.
Hvað er í raun að því að maður sem er nýsloppinn úr fangelsi bjóði sig fram til opinberra embætta? Eða – ef út í það er farið, að maður sem enn sæti í fangelsi biði sig fram? Mætti ekki hugsa sér að almenningur teldi viðkomandi fanga grátt leikinn og gæti vel hugsað sér að styðja hann með atkvæði sínu?
Mér finnst allar hömlur á kjörgengi vera ólýðræðislegar. Best væri að heimila öllum að bjóða sig fram – og þá er ég ekki bara að tala um að ryðja á brott kröfum um óflekkað mannorð, heldur líka kröfum um aldur og ríkisfang. Kosningaréttur gæti svo sem verið áfram bundinn við 18 ára íslenska ríkisborgara – en ef þessir sömu 18 ára og eldri Íslendingar ákveða að velja fanga, útlending eða fermingarbarn – hvers vegna ættu lögin þá að hindra það?
Til viðbótar við þetta finnst mér eðlilegt að auð atkvæði fái „fulltrúa“ á þingi og í bæjarstjórnum. Sem stendur gera auð atkvæði ekki annað en að auka vægi hinna sem kjósa og senda óbein skilaboð. Miklu rökréttara væri ef t.d. tæp 2% kjósenda skila auðu, yrði eitt sæti á Alþingi autt næsta kjörtímabil – þingmönnum fækkaði úr 63 í 62 o.s.frv. Skynsamlegt – ekki satt?