Fórum í gönguferð í hverfinu fyrir kvöldmat. Rákum í það augun á Gunnarsbrautinni að einhverjir krakkar í hverfinu höfðu útbúið ratleik á gangstéttinni. Með jöfnu millibili var búið að kríta fyrirmæli á stéttina á borð við: „Hoppa 100 sinnum“ & „Standa á öðrum fæti og telja upp í 10“.
Á ljós kom að börnin eru stærðfræðinördar, í það minnsta var u.þ.b. helmingur verkefnanna stærðfræðiþrautir þar sem ýmist átti að leggja saman þriggjastafatölur eða draga frá. Við röktum slóð fyrirmælanna upp Mánagötuna – uns við komum að húsinu heima. Fyrir framan tröppurnar var ör og fyrirmælin: „Gera dyraat“
Krakkaormar! – En sá hlær best sem síðast hlær. Dyrabjallan hefur verið biluð í hálft ár! Þetta ætti að kenna gríslingunum…
# # # # # # # # # # # # # #
Eins og fram hefur komið, keyptum við leikfang fyrir Ólínu í útlandinu. Það er lítið tréhús með götum í ólíkum formum og samsvarandi trékubbum sem troða má í gegnum götin – alltsaman afar pedagógískt.
Kubbarnir eru sextán talsins og í fjórum mismunandi litum.
Á kvöld ákvað Ólína að leika sér með kubbahúsið. Hún sturtaði úr því og rótaði svo í kubbunum. Eftir að hafa bjástrað við þetta í smátíma stóð hún á fætur og labbaði til Steinunnar með fjóra kubba í höndunum. Þetta voru einmitt gulu kubbarnir fjórir!
Samkvæmt uppeldisskræðum eiga sextán mánaða grísir ekki að hafa litaskilning. Þetta þýðir því annað af tvennu: annað hvort er barnið bráðgert – eða við ættum að láta hana fylla út lottómiða heimilisins hér eftir.
# # # # # # # # # # # # #
Eins og fram kemur hjá Steinunni mun Ólína byrja á leikskóla um leið og leikskólastjóranum hefur tekist að ráða tvo nýja starfsmenn. Það verður áhugavert að sjá hvort það mun taka tvo daga eða tvo mánuði.
Leikskólar eiga í basli með að fá starfsfólk. Það er þekkt staðreynd.
Starfsfólk á leikskólum fær skítakaup. Það er líka þekkt staðreynd.
Undir eðlilegum kringumstæðum myndu markaðshyggjumenn segja þessar tvær staðreyndir vera samhangandi – og að lausnin væri að hækka kaupið. Þetta snýst jú allt um framboð og eftirspurn, ekki satt?
En þegar kemur að láglaunafólki í opinberum störfum, hætta markaðshyggjumenn að trúa á lögmál markaðarins. Það sást t.d. í ársbyrjun þegar borgin og fleiri sveitarfélög hækkuðu launin í leikskólunum í þeim störfum sem erfitt var að fá fólk í. Þá átti lögmálið um framboð og eftirspurn allt í einu ekki að gilda lengur. Skrítið.
# # # # # # # # # # # # #
Á þessum rituðum orðum er einhver íþróttamynd með Kevin Costner í sjónvarpinu. Er það bara ég – eða hefur Kevin Costner leikið í hundrað íþróttamyndum, sem allar eru eins?
Aldrei þessu vant held ég samt að Rene Russo sé ekki einstæða móðirinn sem endar á að sofa hjá íþróttamanninum. Er það bara ég – eða hefur Rene Russo leikið í hundrað myndum þar sem hún er einstæða móðirin sem endar á að sofa hjá aðalsöguhetjunni?
# # # # # # # # # # # # #
Síðdegis fór ég í spjall á Útvarpi Sögu um friðarmál hjá Guðmundi Tý (Mumma í mótorsmiðjunni). Ekki veit ég hvort margir hlustuðu, en ég hef þó alltaf gaman af að mæta á Útvarp Sögu, enda eru viðtölin þar yfirleitt þrjú kortér. Við þær aðstæður þróast umræðurnar allt öðru vísi en í 5 mínútna örviðtölunum sem maður er vanur úr magasínþáttunum á Rás 2 eða í sjónvarpi.
Annars er toppurinn alltaf að komast í viðtöl á Rás 1. Þar eru umsjónarmennirnir undantekningarlítið undirbúnir og vita nokkurn veginn hvernig viðtalið á að vera byggt upp áður en ýtt er á upptökutakkann.
# # # # # # # # # # # # #
Merkileg Gallup-könnun í fréttunum í kvöld, þar sem afstaða fólks til álitamála varðandi stríðið í Líbanon var greind eftir stuðningi við stjórnmálaflokkana. Er Framsóknarflokkurinn orðið athvarf íslenskra Zíonista?
Mér finnst ekki nógu mikið gert af þessu. Aðilarnir sem sjá um gerð kannananna spyrja um hitt og þetta og sundurgreina það svo eftir stuðningi við flokka, en yfirleitt eru þær niðurstöður einungis til eigin nota. Gaman væri að vita hvort spurningin um ísrael eða Hizbollah hafi verið að frumkvæði Gallups eða hvort hún sé keypt?
Mín ágiskun er að einhver erlendur aðili, hugsanlega Bandaríkjastjórn eða ísraelsstjórn hafi látið Gallup spyrja að þessu víða um heim og íslenska könnunin sé hluti af því dæmi. Samt merkilegt að niðurstöðurnar hafi ratað í Þjóðarpúlsinn en ekki bara til kaupandans ef þessi tilgáta er rétt.