Bill Clinton var kosinn forseti Bandaríkjanna þegar ég var í menntó. Hann lagði þá Bush eldri og sérviskupúkann Ross Perot í kosningum.
Þar sem ég hef aldrei getað staðist kosningavökur var ég á fótum lengi fram eftir. Hef líklega verið að sötra bjór líka. Ég man að Ólafur Sigurðsson var svo reiður yfir að þessi Clinton væri að vinna að hann var næstum farinn að gráta.
Mig minnir endilega að hafa fylgst með a.m.k. hluta kosningavökunnar heima hjá Borgari Þór SUS-formanni, í kjallaranum hjá Ingu Jóni og Geir Haarde. Þar var samankominn smáhópur MR-inga. Hægrimennirnir voru grautfúlir. Við vinstrimennirnir glottum – enda þótti okkur tapið maklegt fyrir Bush sem hafði ýmislegt á samviskunni.
Hvers vegna er ég að rifja þetta upp núna?
Jú, í Blaðinu í morgun er nýkjörin forystukona Heimdallar spurð hvaða fræga persóna hún myndi vilja vera í einn dag. Hún vildi vera Bill Clinton.
Ekki veit ég hvað gömlu skólafélagar mínir úr Heimdalli hefðu sagt við slíkri yfirlýsingu fyrir 14 árum. Ætli stúlkugreyið hefði ekki verið stegld og stjaksett? En svona hefur heimurinn breyst. Clinton er orðin hetja í augum Heimdellinganna.
En það er svo sem margt skrýtið í kýrhausnum. Um daginn heyrði ég í ágætum sósíalista sem talaði um að við þyrftum meira af róttækum vinstrimönnum í pólitíkina – vinstrimönnum eins og Jón Baldvin Hannibalsson!!!
1992 hefði hugmyndin um Jón Baldvin sem vinstri róttækling verið álíka geggjuð og ástarjátningar Heimdallarformanna í garð Clintons forseta.