Var að klára nýju Rebus-bókina, Dauðramannaþulu e. The Naming of the Dead. Bókin kom út á miðvikudaginn var og var fáanleg í íslenskum verslunum fyrir helgi. Ekki amaleg þjónusta það.
Þetta er fínasta bók hjá Rankin karlinum. Það er alveg augljóst að Siobhan er að taka við kyndlinum af Rebusi og mun erfa erkióvin hans í leiðinni. Það fer Rankin líka vel að skrifa um þjóðfélagsmálefni, þótt öll umfjöllunin um G8-fundinn geri það að verkum að minna er lagt í sjálfa glæpafléttuna en stundum áður.
Þegar ég les Rebus langar mig aftur til Edinborgar – í það minnsta á suma barina þar.
Næst fær tengdó bókina lánaða. Þá geri ég ráð fyrir að mamma, Steinunn, Kolbeinn og Palli Hilmars komi fljótt á eftir. Fleiri sem vilja bætast í hópinn?
# # # # # # # # # # # # #
Er ennþá hálflítill í mér eftir að hafa hugsað svona mikið um Komið og sjáið! Ekki minnkar melankólían við að sitja heima í stofu eftir miðnætti og hlusta á Síberíu með Echo & the bunnymen. Nú vantar bara 16 ára einmöltung í glasið – en ætli pilsnerinn verði ekki látinn duga í kvöld.