Uppeldisfræðingar hafa áhyggjur af því hversu mörg börn hafi eigið sjónvarpstæki í herberginu sínu. Fyrir vikið sé sjónvarpsgláp ekki lengur fjölskylduathöfn heldur liggi gríslingarnir í klámi og ofbeldi fram á rauða nótt.
Sjálfur eignaðist ég mitt fyrsta sjónvarp sex eða sjö ára gamall, árið 1981 eða 1982. Fram að þeim tíma hafði fjölskyldan verið sjónvarpslaus með öllu. Hugsanlega var þetta útpæld uppeldisfræðileg ákvörðun hjá mömmu og pabba – líklega réðu þó námsmannablankheit meiru í þessu efni.
Þetta sjónvarpsleysi angraði mig verulega, enda vildi ég horfa á mitt barnaefni. Frá unga aldri spurði ég á hverjum degi við morgunverðarborðið hvort Prúðuleikararnir, Tommi og Jenni eða viðlíka gæðaefni væri í sjónvarpinu það kvöldið. Einatt þrættu foreldrar mínir fyrir það.
Suma daga hrundi blekkingarleikurinn þó, því með sjónvarpsdagskránni í Þjóðviljanum fylgdu oft myndskreytingar – og í hvert sinn sem þar mátti sjá Prúðuleikarana, Tomma og Jenna eða aðra vini mína, linnti ég ekki látum fyrr en farið var í heimsókn til afa og ömmu á Neshagann.
Um fimm ára aldurinn lærði ég svo að stauta mig í gegnum sjónvarpsdagskránna og sífrið jókst um allan helming.
Á þessum árum var í tísku að gefa börnum skuldabréf ríkissjóðs, sem var eins konar kerfi óendurgreiðanlegs skyldusparnaðs. Góðhjartaðir ættingjar fjárfestu í bréfum sem brunnu upp í verðbólgunni – bréfin voru hins vegar smekkleg og fóru vel í hillu.
Það var einhvers konar happdrættisfídus tengdur þessum skuldabréfum. Held að hann hafi virkað þannig að þeir heppnu sem voru dregnir út hafi fengið hluta af peningunum sínum til baka áður en þeir brunnu allir upp.
Svo fór að bréfið mitt var dregið út og að sjálfsögðu var leitað leiða til að eyða fénu meðan það var einhvers virði. Niðurstaðan varð sú að kaupa notað svart-hvítt sjónvarpstæki. Sjónvarpið var því mín eign, en mamma og pabbi borguðu afnotagjöldin sem leigu, enda stóð það í stofunni. Ég var örugglega eini krakkinn í Melaskóla sem átti eigið sjónvarpstæki!