Keppnin fer vel af stað hjá Davíð Þór. Liðin í kvöld voru ekki sérstaklega sterk, en aðeins eitt þeirra fór niður fyrir tíu stigin. Það er ásættanlegt.
Það er reyndar erfitt að leggja mat á það hvernig dómari Davíð verður á grunni þessara viðureigna. Spurningarnar voru mjög hefðbundnar, enda er raunin yfirleitt sú að útvarpshlutinn er ákaflega svipaður frá einum dómara til annars. Það eru sjónvarpsviðureignirnar sem virkilega draga fram karaktereinkenni spurningahöfundarins.
Við lauslega hlustun tók ég ekki eftir neinum villum, umdeilanlegum svörum eða hæpnum úrskurðum. Sigmar víxlaði einu sinni svarréttinum (sem er nú bara það sem búast má við á fyrsta kvöldi) en afgreiðslan á því máli var fumlaus.
Stöku spurningar hefði mátt slípa til. Örfáar hraðaspurningar voru of langar, t.d. var algjör óþarfi að gefa upp stranddaginn á Wilson Muga. „Á lok síðasta árs“ hefði dugað.
Eins finnst mér fátt hvimleiðara en fugla/fiska/blóma-spurningar sem eru beint upp úr Bjarna Sæm eða viðlíka uppflettiritum. Það er ágætt að spyrja um þessi fyrirbæri – en þegar lesnar eru 2-3 málsgreinar í belg og biðu þar sem heimkynnum, hreiðurgerð og litasamsetningu er lýst – þá hætta allir að hlusta. Á svona spurningum geta OF miklar upplýsingar nefnilega ruglað og afvegaleitt. Betra er að spyrja um fá en afgerandi atriði.
Davíð þarf sömuleiðis að vera duglegur að minna sjálfan sig á aldur keppendanna. Það er allt í lagi að skella inn einni og einni spurningu um sítt-að-aftan-sveitir eins og Human League, en það er lítil von til þess að krakkar fæddir 1990 þekki þær. Og þau hafa ekki glóru um hver ritstýrði Þjóðviljanum 1985 – fyrir utan bestu liðin.
Steinunn Vala er komin í hóp reyndari stigavarða. Þess vegna er það hvimleitt að heyra hana ítrekað upplýsa að munurinn sé þetta-og-þetta mikill fyrir einhverJUM. Málfarsráðunauturinn hlýtur að rífa hár sitt og skegg!
Víkjum þá að liðum kvöldsins:
Flensborgarskólinn og Laugarvatn voru svipuð að styrkleika og fengu líklega auðveldasta hraðaspurningapakka kvöldsins. Fínt að fá stelpu í 2. umferðina. Ég yrði þó fremur hissa á að sjá Hafnfirðinga í sjónvarpinu.
Suðurnesjamenn fengu 15 stig eins og Flensborg. Hornfirðingar fengu 10 stig smkv. mínu bókhaldi en 9 smkv. textavarpinu. FS og Flensborg eru á mjög líku róli og í raun ekkert meira um það að segja.
Laugar áttu ekki góða keppni og luku keppni með 8 stig. Garðbæingar nýttu sér það og tóku 17 stig. FG var skaplegasta liðið í kvöld, en það sem einkenndi öll liðin voru slök gisk. Þannig var furðulegt að heyra spurt um yngsta þingmann Sjálfstæðisflokksins og bæði lið bjuggu til bullnöfn á mönnum sem eru ekki einu sinni á þingi. Ég ætla líka að vona að það hafi verið misheyrn hjá mér að eitthvert liðið hafi nefnt Bjarna Ben sem fv. formann flugfreyjufélagsins…
En í það heila tekið fín keppni og lofar góðu fyrir veturinn.