Svipan

Ég þreytist ekki á að hrósa Tí­maritavef Landsbókasafnsins, sem er að opna heilan heim fyrir sagnfræðingum og söguáhugafólki. Stöðugt fjölgar blöðunum sem þarna er að finna og með tí­manum verður vonandi komin virk orðaleit á mestallan tí­maritakostinn, lí­kt og nú má beita á nokkur blöð.

Það eru þó nokkur atriði sem betur mættu fara á þessum annars frábæra vef. Má þar sérstaklega nefna betri upplýsingar um viðkomandi blöð/tí­marit. Ef farið er inn á tí­maritalistann blasir við lesandanaum runa af blöðum sem talin eru upp í­ stafrófsröð. Eini greinarmunurinn er fáninn fyrir framan heiti blaðsins, sem sýnir hvort það er færeyskt, grænlenskt eða í­slenskt – og vel að merkja, vestur-í­slensku blöðin eru ekki auðkennd sérstaklega, sem er galli.

Þarna þyrfti helst að vera valhnappur þar sem hægt væri að fá örstuttar upplýsingar um hvert blað: nafn útgefanda, útgáfustað, útgáfutí­ma og almenn skrif um efni blaðsins – er þetta fyrst og fremst auglýsingablað, birti það þýddar framhaldssögur eða umræðu um þjóðmál. Sum blöð voru fyrst og fremst gefin út til að þjóna ákveðnum hugðarefnum ritstjóra, s.s. bindindismálum, sjálfstæðismálinu o.þ.h. Þetta mætti koma fram og myndi auka notagildi vefsins verulega.

Eitt þeirra blaða sem þarna má skoða er Svipan, sem gefin var út í­ þremur tölublöðum sumarið 1912 af Samsoni Eyjólfssyni. Á blaðinu má einkum finna skrif um „Bræðinginn“ svokallaða í­ sjálfstæðismálinu, sem ritstjórinn virðist nokkuð sáttur við. Nokkuð er skammast hreinlætismálum Reykjaví­kurbæjar, einkum kamrahreinsun og skorti á almenningssalernum. Þá hefur ritstjórinn mikinn áhuga á erlendum fréttum af óknyttum kvenréttindakvenna, sem hann telur greinilega spilla mjög fyrir annars ágætum málstað. Enn má nefna að í­ einu tölublaðinu birtist auglýsing frá útgefanda þar sem hann óskar eftir upplýsingum um spillingu embættismanna, sem hann hyggst fjalla um á miskunnarlausan hátt – enda átti að stinga undan Svipunni.

Af ákveðnum ástæðum fýsir mig að vita meira um þetta blað og/eða útgefandann. Hver var þessi Samson Eyjólfsson? Hélt hann áfram í­ blaðamennsku eftir þessa skammlí­fu tilraun með Svipuna og er hægt að staðsetja hann betur í­ hinu pólití­ska umhverfi þessa tí­ma? Spyr sá sem ekki veit.

Hitt veit ég að gott væri að eiga góða svipu og láta höggin dynja á Moggablogginu.