Sá um daginn auglýsingu. Það er verið að bjóða gamla árganga af Veru til sölu. Ég þarf ekki að kaupa. Öll gömlu blöðin eru til heima hjá gömlu í Frostaskjólinu og sjálfur var ég áskrifandi af síðustu árgöngunum.
Ég lúslas Veru sem pjakkur. írin þegar blaðið var gott, var það helv. gott. En sum árin var það líka alveg rosalega leiðinlegt. Það er mikil synd að Vera hafi gefið upp öndina.
Nú er kominn tími fyrir játningu:
Ég skrifaði einu sinni pistil í Veru. Hann birtist undir dulnefni – er nú er komið að stund sannleikans.
Ætli ég hafi ekki verið fjórtán ára. Ég var í Hagaskóla og afar pólitískt meðvitaður. Á Hagaskólanum voru handmenntagreinarnar kenndar tvö fyrstu árin, en lokaárið voru þær valgrein (sem enginn tók). Á fyrsta bekk var skipt á milli smíða og saumaskapar – en á öðru ári voru strákarnir settir í smíðatímana einvörðungu, en stelpurnar í einhvern saumaskap. Þetta var réttlætt með því að þannig gæfist tími til að vinna að stærri verkefnum, auk þess sem þetta væri almennur vilji nemenda.
Hvað gerir ofurmeðvitaður fjórtán ára gríslingur við þessu? Jú, hann skrifar kvörtunarbréf í Veru. Ég hef aldrei aftur skoðað nafnlausa lesendabréfið, en að öllum líkindum var það fullt af réttlátri reiði yfir að fá ekki að sauma flíkur í handavinnutímum.
Ég man að einhverjum í kennaraliðinu sárnaði þetta bréf – og tuðuðu yfir að enginn nemandi hefði kvartað í eigin persónu til skólayfirvalda. Það voru svo sem ekki þungvæg rök. Hitt er annað mál að persónulega var ég óskaplega feginn að þurfa ekki að sitja við saumavélaræflana í hannyrðaverinu í kjallaranum á Hagaskólanum þennan vetur – þá var nú skárra að þykjast pússa einhvern spýtubútinn hjá Birni smíðakennara. En prinsipið stóð eftir sem áður – ef maður er fjórtán ára femínisti, þá duga engin undanbrögð.
# # # # # # # # # # # # #
Það var mikið fjör í Friðarhúsi í kvöld og frábær matur. Gunnar Guttormsson og Þorvaldur Örn tóku lagið og sungu meðal annars Vögguvísu róttækrar móður. Þar kemur fyrir línan: „Gleymdu því þó aldrei – að meir´en maklegt er, að á sumum þeirra höggvist sundur barkinn!“
Skyldi hér hafa verið ort um Moggabloggið?