Mætti á skólanefndarfund í MR í gær. Ríkið hefur skipað nýja fulltrúa, en við frá borginni fáum líklega að sitja í einhverja mánuði í viðbót. Ég á nú ekki sérstaklega von á að verða látinn sitja áfram fyrir hönd minnihlutans.
Á lok fundar var boðið upp á skoðunarferð um þá hluta skólans sem búið er að endurbyggja. Þetta eru gríðarlegar breytingar og aðstaðan hefur stórbatnað. Á árinu 2008 standa vonir til að ryðja megi burtu gamla KFUM-húsinu og reisa í staðinn byggingu með litlum íþróttasal, fundarsal, félagsaðstöðu og nóg af kennslustofum.
Það var mjög gleðilegt að sjá þessar jákvæðu breytingar, þótt á sama tíma sé það ergilegt hversu hægt þessar framkvæmdir hafa gengið og að ekki hafi verið hægt að vinna þetta með stóráhlaupi. Það er líka kostnaðarsamt að vinna svona verk í smábútum, að ekki sé talað um ónæðið fyrir skólastarfið.
Enn er svo eftir eitt stærsta og líklega kostnaðarsamasta verkið, það er alhliða viðhald á gamla skólahúsinu og bókhlöðunni. Það verður stór biti.
# # # # # # # # # # # # #
Á fyrramálið byrja ég daginn í kennslustund í stjórnmálafræði í MH að ræða um NATO. Það eru yfirleitt skemmtilegar heimsóknir – og verða yfirleitt því skemmtilegri ef 1-2 Heimdellingar eru í hópnum, staðráðnir í að þjarma að manni.
Annars er það besta leiðin til að horfast í augu við elli sína að messa yfir framhaldsskólanemum.
# # # # # # # # # # # # #
Það er runnið bókaæði á Ólínu sem krefst þess að við lesum fyrir hana í sífellu. Bækurnar um Emmu eru langvinsælastar, einkum bókin Emmu finnst gaman á leikskólanum – sem ég hef nú blaðað í gegnum oftar en ég kæri mig um að vita. Emma öfugsnúna er líka ofarlega á vinsældarlistanum.
Kærkomin nýjung í þessari flóru eru Lúlla-bækurnar, en það er sögur af kanínustráknum Lúlla eftir sama höfund og gerði hinar óborganlegu Albin-bækur. Albin er frábær!
Á einni Lúlla-bókinni, Lúlli er hamingjusamur, er lýst röksemdafærslu Hannesar – vinar Lúlla. Hann hughreystir vesalings Lúlla sem er stúrinn eftir að hafa barið á þumalinn með hamri. Hannes segir að Lúlli eigi að vera hamingjusamur, því verr hefði t.d. farið ef svín hefði komið og snúið upp á trýnið á honum.
Megi svín koma að snúa upp á trýnið á Moggablogginu!