Jón Þór Pétursson skrifar á Kistuna um sjálfbæra fjölmiðla, sem búa til fréttir með því t.d. að leggja snörur fyrir kynferðisafbrotamenn. Hann segir:
Á Discworld-seríu fantasíu/vísindaskáldsögu höfundarins Terry Pratchett segir frá mjög öflugu slökkviliði í borginni Ankh-Morpork. Fyrirkomulagið er þannig að slökkviliðið fær borgað fyrir hvern eld sem þeir slökkva, nokkurs konar söluprósenta. Það þarf heldur ekki að fletta mörgum blaðsíðum til að sjá að þarna leynast möguleikar til þess að hækka kaupið töluvert. Slökkviliðið tekur þannig upp þá stefnu að fara að kveikja í til þess að fá meira kaup.
Þessi frásögn minnti mig á sögu sem þýskur forstöðumaður tækniminjasafns sagði mér fyrir mörgum árum. Sem ungur maður þjónaði hann í þýska hernum í varðstöð við landamærin að Austur-Þýskalandi. Þar var dvölin ekki skemmtileg fyrir stráka um tvítugt, bara setið og gónt út í myrkrið. Enginn almennilegur bar í grenndinni. Engar sætar stelpur. Ekkert kvikmyndahús. Ekkert.
Þegar aðgerðaleysið var orðið hvað mest yfirþyrmandi áttu vestur-þýsku hermennirnir það til að varpa eins konar sleðum inn á einskismannslandið og draga þá fram og til baka með löngum köðlum. Innan skamms urðu austur-þýsku landamæraverðirnir varir við hreyfinguna og líf fór að kvikna á svæðinu með ljósagangi og jafnvel skothríð. Hermennirnir vestan megin línunnar höfðu nú nóg að gera við að skrásetja nákvæmlega allar mannaferðir og viðbúnað nágranna sinna næstu klukkustundirnar.
Eftir að hafa tilkynnt annasama nótt til yfirstjórnar landamæraeftirlitsins fengu varðmennirnir sérstaka umbun – dagsleyfi eða helgarfrí í borginni, þar sem hægt var að drekka bjór og góna á stelpur. Líklega hafa félagar þeirra austan járntjaldsins fengið svipuð verðlaun. – Nokkrum vikum eða mánuðum síðar var svo hægt að endurtaka leikinn.
Er þetta ekki gott dæmi um sjálfbær vinnubrögð?
# # # # # # # # # # # # #
Frjálslyndi flokkurinn virðist ætla að tortíma sjálfum sér enn hraðar en nokkur þorði að vona.
Er ekki hægt að fá Jón Magnússon til að ganga næst til liðs við Moggabloggið?