Fyrir nokkrum árum var ég fastagestur á spjallborði sem stuðningsmenn Luton héldu úti. Ég man hvað ég varð undrandi fyrst þegar ég sá auglýsingar um þjónustu á Íslandi, s.s. gistingu og bílaleigu, innan um vangaveltur spekinganna um hvort betra væri að stilla hinum eða þessum leikmanninum upp á miðjunni.
Fyrst hugsaði ég: heimurinn er lítill – hvílík tilviljun! Því næst vorkenndi ég aumingja hóteleigandanum sem hefði hent peningunum út um gluggann með þessum hætti. Þá loks fattaði ég að auðvitað sáu Bretarnir á listanum ekki auglýsinguna. Ég kom hins á síðuna úr tölvu með íslenska ip-tölu og bauðst því að leigja bíl frá Arctic-trucks.
Forritin sem stýrðu auglýsingunum á síðunni voru haganlega útbúin. Þannig leituðu þau í skrifum spjallborðsnotenda eftir stikkorðum. Það var (og er) Króati í liðinu og líklega hefur tíðni nafnsins hans í spjallinu orðið til þess að tölvan reyndi ítrekað að bjóða okkur ferðir til Balkanskaga.
Eitt haustið fór Luton í æfingarferð til Eystrasaltsríkjanna. Þá daga bar mikið á auglýsingum um eistneskar stelpur sem voru til í að giftast körlum frá Vestur-Evrópu. Allar voru þær gullfallegar að sögn eða af myndum að dæma.
Með tíð og tíma urðu klámauglýsingar sífellt fyrirferðarmeiri á spjallborðinu, sem varð að lokum til þess að því var lokað og nýtt opnað með öðru vefumsjónarkerfi. Síðan átti jú að vera fyrir stuðningsmenn af öllum aldri.
Mér varð hugsað til jeppaferðaauglýsinganna á Luton-spjallborðinu í tengslum við fréttir dagsins af klámráðstefnunni fyrirhuguðu. Á yfirlýsingu frá Stígamótum er tiltekið að á kynningarsíðum um ráðstefnuna sé m.a. að finna upplýsingar um hvernig kaupa megi vændi á Íslandi. Þessi staðhæfing hefur svo verið endurtekin í fréttaflutningi.
Hér sýnist mér að hrapað sé að ályktunum og lausleg könnun á tenglum þeim sem vísað er til í fréttinni virðist staðfesta það.
Tölvur með íslenskar ip-tölur fá auglýsingar um íslenskar stelpur. Norskar ip-tölur myndu leiða inn á sömu auglýsingar, nema þar væru stúlkurnar sagðar búa í Osló – og svo koll af kolli. Eitt trixið, til að ljá auglýsingunum aukinn trúverðugleika, er að sýna mynd af stelpu haldandi á stóru hvítu blaði með áletruninni „Welcome to Reykjavik“ eða eitthvað álíka. íletrunin er hins vegar tölvugerð. Sama stelpa býður karla væntanlega velkomna til Helsinki, Berlínar og Kaupmannahafnar.
Það eru engar vændiskonur á íslenskum hótelherbergjum á bak við þessar auglýsingar. Á endanum hlýtur tilgangur þeirra að vera sá einn að hafa peninga út úr graðnöglum. Mögulega eru þeir krafðir um fyrirframgreiðslu eða beðnir um að gefa upp kreditkortanúmer til að borga fyrir hótelherbergi eða e-ð álíka.
Auðvitað eru það labbakútar sem halda úti þessum klámsíðum og efnið dapurlegt, það er hins vegar ofmælt að aðstandendur klámráðstefnunnar séu að leiðbeina um hvernig nálgast megi íslenskar vændiskonur.
Vonandi verður þó baulað á dónaliðið þegar það kemur í næsta mánuði. Legg til að fólk æfi sig með því að baula á Moggabloggið þangað til.