Kalt er við kórbak,
kúrir þar Jón hrak.
ítar snúa austur og vestur,
allir nema Jón hrak.
Á nótt kom kláðinn fyrir alvöru.
Eftir að Ólína tók að hressast af sjálfri hlaupabólunni, tók næsta stig sjúkdómsins við – kláðinn undan hrúðrunum. Á mestalla nótt var hún að bylta sér og klóra. Byltur eru raunar ekki rétta orðið – hún snérist í hringi, rangsælis, þar sem hún barðist við að reyna að finna einhverja þá stellingu þar sem kláðinn yrði bærilegri.
Við Steinunn skiptum á okkur vöktum. Annað svaf inn í gestaherbergi meðan hitt reyndi að halda barninu niðri og hindra hana í að kroppa ofan af hverri bólu. Mín vakt var frá kortér yfir eitt til að verða fjögur.
Til að drepa tímann fór ég að rifja upp í hvaða áttir ég hafi einkum sofið í gegnum tíðina, það er – í hvaða átt höfðalagið hafi vísað. (Já, ég veit – frekar nördalegar hugleiðingar.)
Niðurstaðan var sú að ég hafi sofið í allar höfuðáttir og sjaldan verið með neitt miðjumoð. Það var helst árið mitt í Edinborg sem ég vísaði í norðaustur. Oftast hef ég sofið í vestur eða austur – og það sem er ekki síður áhugavert, er að þannig hef ég sofið best. Þau skipti sem ég hef vísað í norður eða suður hafa aldrei verið langvinn.
Á ég að reyna að lesa eitthvað út úr þessu? Á það minnsta reikar hugurinn til Jóns hraks. Hann kunni því illa að fá ekki að liggja í austur og vestur.
Megi Moggabloggið verða jarðað í norður og suður!