Jæja, nú eru nokkrar vikur í Alþingiskosningar – og eins og alltaf gerist við þau tímamót boðar ríkisvaldið uppstokkun á kjörum öryrkja.
Skýrslan sem um ræðir er nú ekki ýkja stór, aðeins átta blaðsíður – þar af 4-5 sem rekja tölur um fjölda öryrkja og almennt snakk um reynslu annarra. Allt upplýsingar sem birst hafa ótaloft áður.
Sjálfar tillögurnar eru í stikkorðastíl á tveimur síðum, enda væntanlega hugmyndin að útfæra þær nánar síðar. Það er erfitt að sjá af skýrslunni hver markmiðin með breytingunum séu. Látið er að því liggja að miklir peningar muni sparast, en jafnljóst er að framkvæmdin yrði fokdýr ef staðið væri við stóru orðin. Líklega munu lífeyrissjóðirnir þó gleðjast mest. Ætli hugmyndin sé ekki að skera þá niður úr snörunni?
Ef við trúum því í augnablik að hér sé ekki um líttdulbúnar niðurskurðarhugmyndir að ræða – heldur sé í raun ætlunin að standa við öll stóru, óútfærðu markmiðin – er ljóst að ýmsir hópar sérfræðinga geta gert sér glaðan dag.
Hér er nefnilega kallað eftir því að um hvern einasta öryrkja landsins verði myndað teymi sérfræðinga. Á þessu sérfræðingateymi yrðu – eftir því sem ætti við hverju sinni – læknar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, námsráðgjafar, sálfræðingar o.s.frv. Þessi hópur myndi svo búa til einstaklingsbundið örorkumat fyrir hvern og einn öryrkja. Þetta teymi á svo að koma saman ekki sjaldnar en einu sinni á ári – og helst oftar – og vinna nýja matsgerð.
Félagsráðgjafafélagið hefði ekki í sínum blautustu draumum getað látið sér detta í hug svona tillögur!
Getur fólk reynt að gera sér í hugarlund hversu mikla vinnu það myndi útheimta og hversu fáránlega dýrt það yrði, að búa til teymi sérfræðinga til að sinna hverjum einasta öryrkja landsins? Við þyrftum að margfalda framleiðsluna á félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum og fleiri hópum sérfræðinga. Sök sér ef þessi aðgerð væri hugsuð sem gríðarlega útgjaldafrek leið til að létta öryrkjum lífið – en menn virðast ímynda sér að þessu geti meira að segja fylgt sparnaður!
Hinn möguleikinn er sá að þetta sé bara orðagjálfur. Að sérfræðingateymin í kringum hvern öryrkja og einstaklingsbundna matið verði í orði en ekki á borði – hóparnir komi aldrei saman og hver sérfræðingur sé með mörghundruð öryrkja á sinni könnu.
Það skyldi þó ekki vera?
# # # # # # # # # # # # #
Heyri í fréttum að ungir róttæklingar um alla Evrópu séu að mótmæla niðurrifi æskulýðshallarinnar í Danmörku. Væri ekki rökrétt fyrir íslenska anarkista að beina spjótum sínum að dönskum dögum í Hagkaup?
Drekkjum Moggablogginu í Jolly Cola!