Úrslit kvöldsins í fótboltanum voru eins og best verður á kosið. Hull tapaði 2:5 á heimavelli gegn Ipswich (nú – um hvaða leik annan hélduði að ég væri að skrifa?) Hull hafði fyrir kvöldið leikið einum leik minna en Luton, en nú eiga bæði lið tíu leiki eftir og við erum stiginu ofar. Litlu verður vöggur feginn.
# # # # # # # # # # # # #
Andinn í glasinu er klassískur tíu ára Ardbeg. Þetta er ennþá uppáhalds viskýið mitt – þ.e. miðað við „venjulegt viský“, ekki eitthvað sérstaklega gamalt og fínt sem kostar skrilljónir.
Þessi flaska á ekki eftir að verða langlíf í skápnum góða.
# # # # # # # # # # # # #
Ók Sæbrautina heim úr vinnu í dag. Við Höfða var umferðarteppa vegna einhvers áreksturs. Ég notaði tímann til að pæla í litla mastrinu sem stendur rétt neðan við þessa glæsilegu byggingu, rétt fyrir ofan götuna. Hvaða tilgangi þjónar þetta mastur? Gaman væri að fá svar við því.
Helst datt mér í hug að mastrið ætti að minna á gömlu Marconi-loftskeytamöstrin sem stóðu jú við Höfða og sem Einar Ben. hafði milligöngu um að reisa.
Þegar Mikla norræna lagði símann á land, var eigendum mastranna gert að hætta að taka við loftskeytum. Nýja ritsímakerfið mátti ekki fá samkeppni frá öðrum tæknikerfum. Fyrir vikið fækkaði aftur erlendum fréttaskeytum í Reykjavíkurblöðunum, sem höfðu vart birt annað þann skamma tíma sem móttökustöðin við Höfða var uppi.
Sumir trúðu á þráðlausu fjarskiptin. Þar á meðal nokkrir vaskir bændur úr sýslumannsumdæmi Einars Ben. á Suðurlandi. Þeir riðu til fundar fyrir framan Stjórnarráðið.
Megi sunnlenskir bændur ríða til fundar gegn Moggablogginu!