Skoðanakönnunin sem Fréttablaðið slær upp í dag er varla uppörvandi fyrir boðað framboð aldraðra og öryrkja. Að sönnu segjast fleiri myndu íhuga að kjósa slikt framboð en Íslandsflokk Ómars – en það held ég að segi bara hálfa söguna.
Ef ég lenti í skoðanakönnun þar sem spurt væri hvort til greina kæmi að kjósa framboð eldri borgara, þá kæmi á mig smá hik. Ekki svo að skilja að ég sé ekki búinn að ákveða hvað ég ætla að kjósa (fínt að fá Steinunni á þing – þá get ég hætt að vinna og hangið heima fyrir framan sjónvarpið) – samt þætti manni óþægilegt að viðurkenna í skoðanakönnun að ekki komi til greina að láta eldri borgurum atkvæði í té.
Held að sama myndi gerast ef ég yrði spurður um afstöðu mína til framboðs samkynhneigðra, nýrra íslendinga, einstæðra foreldra o.s.frv. Einhvern veginn finnst manni það hljóma eins og fordómar í garð viðkomandi hóps að segjast ekki íhuga að kjósa framboðið. Allt öðru máli gildir t.d. um Ómar og félaga.
Út frá þessu held ég að verði að skoða þessa tölu um að 13% íhugi að kjósa framboð aldraðra og öryrkja. Raunar finnst mér talan vera ótrúlega lág og gefur til kynna að fylgið í kosningum verði vart yfir tveimur prósentum.
# # # # # # # # # # # # #
Frjálsyndi flokkurinn kynnti framboðslista sína í dag. ísgerður Jóna Flosadóttir frá Fjölskylduhjálpinni er í öðru sæti í kjördæminu mínu. Hver ætlar að semja fyrsta brandarann um útrunnið kornflex og kakómalt?
Megi Moggabloggið nærast á útrunnum matvælum!