Á framboðslista Frjálslynda flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu er maður að nafni Þorkell Máni. Það er ekki Þorkell Máni útvarpsmaður á X-inu og gamall flokksbróðir minn úr Alþýðubandalaginu. Nei, þetta er allt annar Máni.
Og það er raunar af mörgum að taka. Leit í þjóðskrá leiðir í ljós að ellefu íslenskir karlar heita Þorkell Máni. Sá elsti fæddur 1960.
Þótt Máni sé í hópi vinsælli millinafna í íslensku, eru þetta augljóslega fleiri Þorkatlar Mánar en búast mætti við. ístæðan er sú að nafnið á sér sögulegar rætur – þótt eitthvað segi mér að ekki hafi foreldrar allra þeirra ellefu sem nú bera nafnið gert sér grein fyrir þeirri tengingu.
Þorkell Máni Þorsteinsson var lögsögumaður á Alþingi á seinni hluta tíundu aldar. Hann var sonarsonur Ingólfs Arnarsonar, ef marka má heimildir. Þorkell Máni naut vinsælda í upphafi tuttugustu aldar og var tvímælalaust í hópi þeirra persóna frá söguöldinni sem fólk átti almennt að þekkja. ístæðurnar voru svo sem ekki augljósar. Hann var enginn Grettir, Njáll eða Egill Skallagrímsson – litrík persóna í magnaðri Íslendingasögu. Eiginlega var hann aðallega frægur fyrir að vera frægur. Hálfgerð Paris Hilton landnámsaldar?
Með dvínandi áhuga á Íslendingasögunum og gullöldinni til forna, vildu minna þekktar hetjur falla í gleymskunnar dá. Þorkell Máni lenti í þeim hópi.
Eitt sinn ákvað ég að spyrja um Þorkel Mána í Gettu betur, enda áleit ég að hann væri þrátt fyrir allt ennþá það þekkt persóna að veðja mætti á að skarpir framhaldsskólanemar gætu giskað á nafnið.
Ég spurði sem sagt um nöfn nokkurra gatna í Norðurmýrinni – þar á meðal Mánagötu og eftir hverjum þær væru nefndar. Á ljós kom að krakkarnir höfðu aldrei heyrt um þennan Þorkel Mána getið og urðu eiginlega reið yfir að spurt væri um svona nóboddí úr sögunni. 30-40 árum fyrr hefði þetta líklega þótt skítlétt spurning. Svona geta sögulegar persónur hratt gleymst.
# # # # # # # # # # # # #
Nenni ekki að semja aðra bölbæn fyrir Moggabloggið. Sú frá því fyrr í kvöld verður að duga.