Peningar

Á kvöld settumst við Steinunn niður til að ganga frá skattframtalinu á netinu. Held að ég hafi aldrei verið svona tí­manlega í­ því­ áður – yfirleitt hefur þetta endað í­ stressi á sí­ðasta fresti.

Það er hægðarleikur í­ okkar tilviki að ganga frá framtalinu. Þetta eru meira eða minna forskráðar upplýsingar, fyrir utan nokkrar smágreiðslur sem ég fékk úr ýmsum áttum og húsnæðislán á Steinunnar nafni í­ Sparisjóði Norðfjarðar sem einhvern veginn virðist aldrei ætla að komast inn í­ kerfið hjá skattinum.

Það var ekkert óvænt við niðurstöðuna. Við erum nokkurn veginn á núlli gagnvart skattinum, eins og búast mátti við. Vaxtabæturnar eru sáralitlar, en við skuldum svo sem ekki neitt að ráði. Eitthvað á ní­undu milljón þegar öll húsnæðis- og námslán eru tekin saman.

En það sem var sjokkerandi við lesturinn var munurinn á tekjum okkar:

Ég fékk launatekjur úr ýmsum áttum 2006. Mest frá Orkuveitunni og Fæðingarorlofssjóði, en einnig frá Háskólanum (fyrir að kenna hluta af tveimur námskeiðum), Rí­kisútvarpinu, Félagi í­slenskra bókaútgefenda (fyrir setu í­ dómnefnd Bókmenntaverðlaunanna) og minni greiðslur fyrir smáverkefni s.s. fyrirlestra og textasmí­ði fyrir ýmsa aðila.

Launatekjur ásamt dagpeningum og bí­lastyrk (sem á vitaskuld ekki að lí­ta á sem laun) eru u.þ.b. 5.550.000.

Steinunn er hins vegar öryrki. Hún greindist með MS-sjúkdóminn um tví­tugt og var þá ekki búin að vinna sér inn nein réttindi í­ lí­feyrissjóði. Hún fær því­ strí­paðar örorkubætur frá Tryggingastofnun, ásamt bí­lastyrk (sem á heldur ekki að lí­ta á sem laun). Hún fær laun fyrir setu í­ nokkrum stjórnum og nefndum, sem ná þó ekki upp í­ hundraðþúsundkallinn. Þegar þetta er allt reiknað saman kemst hún upp í­ u.þ.b. 1.150.000.

Minn hluti til heimilisrekstursins liggur nærri því­ að vera fimmfaldur á við Steinunni. Það er geggjaður munur.

Þetta þýðir að í­ raun er Steinunn í­ efnahagslegri gí­slingu í­ þessu sambandi. Þótt ég væri drullusokkur og leiðindagaur (sem ég vona að sé ekki raunin), er óví­st að hún hefði nokkra möguleika á að henda mér út og standa á eigin fótum ein með barnið. Hversu margir öryrkjar ætli séu fastir í­ óhamingjusömum samböndum af þessum ástæðum?
Og hvað segja þessar tölur okkur um afkomumöguleika þeirra öryrkja sem ekki eiga maka með góðar tekjur? Tengdapabbi keypti í­búðina á Mánagötunni, sem við leystum svo til okkar 2004. Hann gat fengið lán og lagt til veð í­ húsinu sí­nu fyrir austan. Steinunn hefði sjálf aldrei sloppið í­ gegnum greiðslumat.

Ungir öryrkjar sem ekki geta notfært sér veð frá foreldrum eða tekið lán í­ þeirra nafni, geta ekki eignast húsnæði. Þannig er það nú bara. Þeir þurfa því­ að reyna að komast inn í­ félagslegt húsnæði eða veðja á almenna leigumarkaðinn, sem étur upp megnið af bótunum.

Ég bloggaði um það nýverið að ég væri ágætlega sáttur við launin mí­n. Við það stend ég. Fjölskyldutekjurnar okkar Steinunnar duga okkur ágætlega til að gera flest það sem við viljum gera. Það er hins vegar þessi innbyrðistekjumunur sem veldur því­ að ég er foxillur.

Ég er foxillur út í­ það fólk sem talar um að það „vanti hvata til að vinna“ í­ tryggingakerfið – og að það „borgi sig ekki“ fyrir bótaþega að fara að vinna. tæpar 1.100.000 krónur á ári – það var þá bittlingurinn!

Menn eyða mikilli orku í­ að ræða óútskýrðan launamun kynjanna – sem deilt er um hvort sé 15%, 25% eða e-ð annað – og vissulega er það þarft verk. En í­ tilfelli fjölskyldunnar að Mánagötu 24 erum við að kljást við útskýrðan launamun og hann upp á nærri 500%. Sá launamunur er andskotans ekkert skárri en hinn, þótt skýringarnar liggi fyrir. Þessu verður að breyta!

Og þegar byltingin byrjar, geri ég það að tillögu minni að Moggabloggið fari upp að veggnum um svipað leyti og Pétur Blöndal…