Það sést á Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar að það er kosningaár. Á miðju blaðsins er kort sem sýnir verkefni almanaksársins og þar er margt spennandi í gangi. Ég rek augun í að það virðist vera ætlunin að leggja bundið slitlag á veginn um Þvottár- og Hvalnesskriður. Það hélt ég að yrði óyfirstíganleg hindrun nema með jarðgöngum, enda hlíðin á fleygiferð.
Að þeirri framkvæmd lokinni er bara eftir vegurinn fyrir botni Berufjarðar til að hringvegurinn verði allur með bundnu slitlagi. Sá sem tekur við samgönguráðuneytinu eftir kosningar ætti því að geta baðað sig í sviðsljósinu strax haustið 2008 þegar klippt verður á borða.
Það er loksins eitt og annað að gerast í vegagerð á Vestfjörðum. Ég er þó hræddur um að Þorskafjörðurinn gæti farið illa út úr nýja veginum. Það er einn af mínum uppáhaldsstöðum á landinu eftir minnisstæða dvöl þar sumarið 1986.
Þegar Vestfjarðakortið er skoðað sérstaklega öskrar á mann hversu brýn göngin um Hrafnseyrarheiðina eru orðin. Djúpvegurinn er að verða fínn og þegar vegurinn um Arnkötludal verður kominn, þá verður ekki hjá því komist að gera stórátak á suðursvæðinu.
Á Snæfellsnesi er gaman að sjá að til standi að vinna í Útnesvegi. Það á hins vegar ekki að splæsa neinni olíumöl í veginn frá Stykkishólmi og í Dalina. Þar er svo sem ekki umferðarþunganum fyrir að fara.
Leiðin frá Grindavík að Reykjanesvita verður tekin í gegn, sem er mjög gott. Ég reyni að fara með alla erlenda gesti í bíltúr um Reykjanesskagann. Því miður er ekki gert ráð fyrir vinnu á Krísuvíkurleið – þá væri sunnudagsrúnturinn fullkomnaður.
# # # # # # # # # # # # #
Ég var of fljótur að fagna í síðasta bloggi. Pakkinn góði frá Amazon kom ekki í dag – heldur miði frá Póstinum um að enginn hefði verið heima kl.19 og ég geti sótt böggulinn á næsta pósthús.
Miðann sá ég þegar ég ætlaði út úr húsi kl. 19:15. Var þá búinn að vera heima í klukkutíma. Þrjóturinn hefur ekki nennt að banka og smeygt inn miðanum til að vera fljótari í förum.
Megi Moggabloggið hafna í helvíti – sem stýrt verður af yfirmönnum Íslandspósts.