Horfði á leiðtogaumræðurnar í Kastljósinu í kvöld. Get ekki sagt að þær hafi verið minnisstæðar – nema þá helst fyrir eitt atriði: augað á Guðjóni Arnari.
Nú veit ég að það er hvorki kurteislegt að góna á svona lýti eða málefnalegt að velta sér uppúr því – en ætli þorri áhorfenda hafi ekki setið heima í stofu og hugsað: „Hvað er með þetta blóðhlaupna auga? Er maðurinn að fá hjartaáfall í beinni útsendingu? ít hann bara salt alla páskahátíðina?“
Nú les ég eitthvað um það á bloggsíðum að Guðjón Arnar hafi verið með sýkingu og jafnvel fárveikur í þættinum. Það gæti reyndar skýrt firnaslaka frammistöðu hans.
Annars hafa stjórnmálaforingjar farið misvel út úr því að mæta veikir eða lemstraðir í sjónvarpsþætti fyrir kosningar. Sighvatur Björgvinsson var t.d. ekki að græða 1995 þegar hann var hálfkrambúleraður með aðra höndina eða báðar í fatla – verandi fyrir hataður eftir störf sín sem heilbrigðisráðherrann sem setti á komugjöldin.
Davíð Oddsson fór hins vegar ágætlega út úr því 1990 í borgarstjórnarkosningum að koma beint af sjúkrabeði með stóra plástra í andliti eftir e-a veirusýkingu. íhorfendum fannst stjórnarandstaðan vera lúaleg að lúskra á veikum manninum í umræðuþættinum og hann fékk samúð – ekki þar fyrir að stjórnarandstaðan 1990 var svo slöpp að hún hefði aldrei haft neitt í borgarstjórann að gera, plástraðan eða óplástraðan.
Megi Moggabloggið bryðja salt – og það ótæpilega.