Íslenski kolefnissjóðurinn – sem gefur fólki færi á að láta planta trjám til mótvægis við það sem það mengar með öðrum hætti – var kynntur í fjölmiðlum í dag. Hann heitir Kolviður. Skýringin á nafninu er á þessa leið, svo gripið sé niður í kynningarpésa frá aðstandendum:
Nafnið Kolviður má rekja til Kolviðar á Vatni, fornkappa sem felldur var við Kolviðarhól og heygður. Aðstandendum Kolviðar þykir við hæfi að fá fornkappann í lið með sér til að minna á að um þriðjungur landsins var skógi vaxinn á landnámsöld. Á dag er einungis um 1,3% landsins skógi vaxið.
Langsótt? Jú, svolítið – en á móti kemur að kosturinn við Kolviðarnafnið er að það býður upp á einhverja orðaleiki: KOL-díoxíð, VIíUR… Voða sniðugt. Kolviður litli gæti líka orðið krúttleg einkennisskepna, ekki ósvipað og Staupasteinn – lukkudýr Hvalfjarðarganganna átti að vera.
En hvað ef það var enginn herra Kolviður fornkappi?
Einhver áhrifamesta hugvísindakenning seinni tíma er náttúrunafnakenning Þórhalls Vilmundarsonar sagnfræðings. Hún er í stuttu máli á þá leið að örnefni séu undantekningarlítið kennd við landslag eða náttúrufyrirbæri en nær aldrei við sögupersónur. Hins vegar séu fjölmörg dæmi um að menn „búi til“ sögupersónur sem dragi nöfn sín af örnefnum sem síðan eru ranglega talin heita eftir persónunum.
Samkvæmt þessari kenningu var ekki til skip sem hét Elliði og Elliðaárnar eru kenndar við. Öxará heitir ekki svo vegna þess að einhver glutraði vopninu sínu út í hana – og það var heldur ekki til neinn herra Gullbringa.
Sumir telja að Þórhallur Vilmundarson hafi með náttúrunafnakenningunni viljað ganga of langt í þá átt að klippa á tengsl milli sögulegra atburða og örnefna – en nær allir sagnfræðingar eru sammála um að það sé heilmikið til í kenningunni.
Það þýðir að stöðugt er ástæða til að vera á varðbergi gagnvart sögupersónum á borð við garpinn Kolvið sem á hafa verið heygður við Kolviðarhól. Allt eins líklegt er að Kolviður sé seinni tíma tilbúningur til að skýra hið sérkennilega örnefni.
Og hvers vegna gæti Kolviðarhóll annars heitið þessu nafni? Nærtækasta skýringin er sú að þar hafi áður verið kjarrlendi – skógur þar sem menn hafi sótt sér við til kolagerðar, kolvið. Kolin hafa einkum verið nýtt til járnvinnslu, en önnur örnefni á svæðinu benda til þessa – svo sem Rauðavatn, þar sem mýrarrauða var að finna.
Ef þessi tilgáta er rétt, þá er sjarminn af nafninu farinn. Kolviðarnafnið myndi þá beinlínis vísa í hið miskunnarlausa skógarhögg til kolagerðar sem einmitt ber ábyrgð á því að nú er innan við eitt og hálft prósent landsins skógi vaxið. Það er eiginlega erfitt að hugsa sér mikið óheppilegri nafngift fyrir félag af þessu tagi – nema þá kannski „Sinubruninn“ eða „Káti skógarhöggsmaðurinn“…
Megi Moggabloggið stikna í kolviðargröf!