Allra dyggustu lesendur þessarar síðu kunna að hafa fengið um það grun að mér sé eilítið illa við Moggabloggið. Á stuttu máli sagt finnst mér Moggabloggið standa fyrir allt það versta í bloggheimum og hafa gert stórskaða á því bloggsamfélagi sem hér hefur verið að byggjast upp síðustu átta árin eða svo. Ég átta mig ekki alveg á því hvort meinsemdin felist í því að aðstandendur Moggabloggsins skilji ekki út á hvað blogg gengur eða hvort þeir séu hreinlega illkvittnir. Líklega er skýringin blanda af hvoru tveggja.
Ég skal þó viðurkenna að í fyrstu taldi ég að sumir vankantarnir á Moggablogginu væru bernskubrek sem takast myndi að sníða af með tímanum. Þannig trúði ég ekki öðru en að fljótlega yrði horfið frá þeirri tilraun að meina öðrum en skráðum Moggabloggsnotendum að skrá athugasemdir með tenglum á sínar eigin síður. Raunin hefur orðið sú að nú er gengið lengra í þá átt að hrekja óinnskráða í burtu með því að birta ip-tölur þeirra með athugasemdum.
Ég trúði því ekki heldur að Mogginn myndi láta það líðast að tenglar yfir á athugasemdir frá nafnlausum bloggurum birtust við greinar á mbl.is. Á mínum huga er það klárt mál að með slíkum birtingum er Mogginn um leið að taka ritstjórnarlega ábyrgð á efni þessara nafnlausu síðna – á sama hátt og þegar fjölmiðill birtir skrif undir dulnefnum.
En af öllum þeim ótalmörgu hlutum sem bögga mig varðandi Moggabloggið, er að geta hvergi fundið neina notkunarskilmála. Nú trúi ég ekki öðru en að þeir sem stofna Moggablogg þurfi að undirgangast einhver skilyrði – t.d. varðandi það efni sem þeir birta á vefsvæðinu? Mega Moggabloggarar t.d. hrúga klámefni inn á síðurnar sínar athugasemdalaust? Á sama hátt hlýtur það að vera tiltekið í notkunarskilmálum hvernig Mogginn má nota þær persónuupplýsingar sem hann aflar sér um Moggabloggarar og netnotkun þeirra – eða hvað?
Ekki kæri ég mig um að skrá mig á Moggabloggið til að geta nálgast þessa skilmála. Getur ekki einhver frætt mig um hvernig þessum málum er háttað og helst sent mér skilmálana eða tengil á þá.
Megi Moggabloggið verða úrskurðað ólöglegt af Mannréttindadómstólnum!