Það hefur verið merkilegt að fylgjast með spunanum úr röðum Samfylkingarinnar í tengslum við stjórnarmyndunina á dögunum.
Fyrstu dagana var miklu púðri varið í að kenna VG-fólki um að ekki hafi komið til tals að mynda þriggja flokka miðju/vinstristjórn. Þannig hafi forystumenn í VG slegið þennan möguleika út af borðinu og gott ef Össur Skarphéðinsson kallaði formann Vinstri grænna ekki guðföður ríkisstjórnarsamstarfsins. Jafnframt mátti skilja á Samfylkingarfólki að Framsóknarmenn hefðu hæglega getað reynst nýtur samstarfsflokkur – ef ekki hefði verið fyrir stíflyndi VG.
Þessi túlkun var sérkennileg frá fyrsta degi. Samkvæmt henni hefði Samfylkingin verið nánast óvirkur gerandi í atburðum síðustu vikna. íkvarðanir hennar hefðu í raun ekki verið teknar á forsendum flokksins og forystufólks hans, heldur verið afleiðingar af ákvörðunum annarra stjórnmálaflokka og -leiðtoga. Málflutningur af því tagi væri eðlilegur frá flokki í bullandi vörn. Fátt í tengslum við þessa stjórnarmyndun benti til að sú væri raunin. Hafi niðurstaðan mætt andspyrnu innan flokksins, hefur tekist að halda því leyndu fyrir fjölmiðlum – og hvað viðbrögð annarra flokka varðar, voru þau fyrst og fremst til málamynda. Mér dettur ekki í hug ný ríkisstjórn í Íslandssögunni sem fengið hefur jafnléttvægar skammir frá nýrri stjórnarandstöðu við myndun sína.
Þegar þessar staðreyndir runnu upp fyrir Samfylkingarfólki, var hafist handa við að vinda ofan af spunanum. Nú er sagan farin að taka á sig þá mynd að það hafi ekki verið Steingrímur Joð eða Ögmundur sem hafi slegið af hugmyndir um þriggja flokka miðju/vinstristjórn – heldur hafi það einmitt verið Samfylkingin eða Ingibjörg Sólrún sem komst að þeirri niðurstöðu að slík stjórn væri ekki á vetur setjandi (ekki hvað síst vegna ósamlyndis VG og Framsóknar). Guðni ígústsson tekur reyndar undir þessa söguskýringu í viðtali í Blaðinu um helgina, þar sem hann segir Samfylkinguna hafa ákveðið að vonlaust væri að koma á slíkri stjórn – nema Guðni telur að sú niðurstaða hafi byggst á að VG væri glataður flokkur en feli ekki í sér dóm yfir Framsóknarmönnum.
Það er kúnstugt að á hálfri viku hafi spuninn í kringum stjórnarmyndunina snúist í nálega 180 gráður. Það sem var í fyrstu kynnt til sögunnar sem illvirki Vinstri grænna og til marks um slæmt hugarfar þeirra – er nú orðin skynsamleg ákvörðun Samfylkingarinnar tekin af vel yfirlögðu ráði. Það er spuni í lagi!
Verst er að Össur Skarphéðinsson situr uppi með að hafa gefið sjálfum sér einkunnina „guðsonur Steingríms Joð“ – það er nokkuð sem honum gæti reynst erfitt að klóira sig útúr síðar.
# # # # # # # # # # # # #
East Stirlingshire hafnaði í neðsta sæti skosku deildarkeppninnar fimmta árið í röð. Nú liggur fyrir að ef félagið nær ekki að lyfta sér úr botnsætinu á næsta tímabili verður því vísað úr deildinni. Þessi tíðindi hljóta að hryggja stuðningsmenn Manchester United, því Alex Ferguson byrjaði jú þjálfaraferil sinn þarna.
# # # # # # # # # # # # #
Á kvöld var ég leynigestur á skemmtilegri samkomu. Kannski meira um það síðar.
# # # # # # # # # # # # #
Mínir menn í Sevilla hanga enn í Real Madrid og Barcelona. Ekki hef ég þó mikla trú á að bæði lið tapi stigum í næstu tveimur leikjum.
Af hverju Sevilla? Tja – ætli það sé ekki frá því að Dasayev var í markinu þar…
# # # # # # # # # # # # #
Steinunn er með magakveisu og Ólína ljótan hósta.
Þið megið giska hvers ég ætla að óska Moggablogginu að þessu sinni…