Fyrir rúmlega einu og hálfu ári var eldhúsið á Mánagötunni tekið í gegn. Á leiðinni reif ég niður skáp milli eldhússins og gangsins svo eftir stóð stórt gat. Upp í þetta gat var múrað svo veggurinn yrði sléttur og fínn.
Núna er veggurinn farinn að springa. Svo sem ekkert stórvægilega og sprungurnar eru ekki margar – en þær lengjast og þeim fjölgar.
Auðvitað geta sprungur myndast af ýmsum ástæðum og það er ekkert óeðlilegt við að sprungur komi fram eftir nokkra mánuði í nýjum vegg, en við erum nokkuð viss um í hverju skýringin liggur: Höfðaborginni.
Eins og allir sem keyrt hafa fram hjá Borgartúninu vita, er þar kominn gríðarstór gígur í jörðina sem á að hýsa fáránlega stóran bílastæðakjallara og undirstöður fyrir skýjakljúfa. Þegar verið er að sprengja klöppina nötrar Norðurmýrin.
írni bókbindari heitinn, sem bjó í húsinu á móti okkur, var öllum stundum úti í garðinum sínum og þekkti hvern krók og kima í þessum hluta hverfisins. Raunar var hann svo fróður um allt varðandi húsin í nágrenninu að fólk leitaði til hans varðandi ráð um hvar lagnir væri að finna o.þ.h.
Bókbindarinn fullyrti að fjöldinn allur af sprungum á sínu húsi og annarra væri afleiðing af Höfðaborgarsprengingunum. Við hin gátum svo sem ekkert sagt af eða á – ekki man ég hvaða sprungur var hvar að finna þegar ég flutti inn…
Nú búum við fjári langt frá sprengigígnum í Borgartúninu. Hvernig ætli ástandið sé þá hjá þeim sem nær eru? Á næsta nágrenni eru t.d. hús sem eflaust eru mörg hver með gamlar klóaklagnir. Það er ekki lítill biti fyrir húseiganda ef klóakið fer í sundur – og varla ber byggingarverktakinn nokkra ábyrgð.
Á ljósi þessarar reynslu er ég vægast sagt lítið spenntur fyrir „Hlemmi-plús“, hugmyndum um að ryðja burtu húsunum í Meðalholtinu (eða hvað þessi gata með gömlu ölgerðinni heitir) og koma þar upp háum húsum með miklum bílakjöllurum. Hver verða áhrifin af þeim sprengjukonsertum fyrir gömlu húsin í Norðurmýrinni sem sum hver eru orðin býsna lúin?
Megi Moggabloggið fara niður með einni dýnamíthleðslunni í Höfðaborginni.