Gunni þingmannsfrú skammar mig reglulega fyrir að blogga of mikið um viskýið sem ég drekk. Segist verða viðþolslaus við lesturinn og stökkva út á galeiðuna í stað þess að sinna heimsspeki og fjölskydulífi.
Hann hefur hins vegar aldrei bannað mér að skrifa um bjórbirgðir heimilisins. Birgðastaðan á þeim bænum er reyndar með besta móti um þessar mundir.
Ég er hættur að kaupa bjór í áldósum fyrir heimilið. Það er reyndar óskaplega freistandi að gera það þegar maður býr í íbúð með lítið geymslupláss – þá er svo auðvelt að kremja dósirnar niður í ekki neitt og láta langt líða milli endurvinnsluferða. Núna er ég á sífelldum þeytingi með tómar flöskur í dósakúlur. Hvers vegna er ekki almennilegt skilagjald á þessu – eins og t.d. í Danmörku. Ef flaskan gæfi t.d. þrjátíukall myndi dæmið horfa töluvert öðruvísi við.
En það eru önnur rök fyrir flöskukaupunum. Þegar Steinunn eignaðist Ólínu hafði það í för með sér ýmis ófyrirséð áhrif á líkamsstarfsemina, t.d. breyttist smekkur hennar varðandi ýmsa þætti í mataræði. Fyrir óléttu drakk Steinunn oft bjór, jafnt úr flösku eða dós heima fyrir eða af krana á börum. Á dag lítur hún ekki við öðru en flöskubjór (og þá í litlum mæli). Dósir má hún ekki sjá – og það dugir tæpast þótt ég helli bjórnum í glas í næsta herbergi… Bjórinn skal drukkinn úr flösku og af stút. (Jamm, konan er augljóslega snar – en hvað get ég gert, ég elska hana samt.)
Fyrir vikið er alltaf til kippa af tékkneskum Budwar í ísskápnum fyrir Steinunni (og mig eftir föngum). Við hlið hennar hefur síðustu mánuði alltaf verið tiltæk kippa af Kalda, tékkneska bjórnum frá írskógsströnd. Ég kolféll fyrir þessum bjór eiginlega strax í upphafi. Hann minnir mig alltaf á Pilsner Urquell sem ég held mikið uppá. Það er einfaldlega frábært að Íslendingar hafi loksins lært að brugga góðan bjór – og ekki er lakara að það sé gert í smábæ á landsbyggðinni en ekki í verksmiðju uppá Höfða.
Frá og með deginum í dag er líka að finna dökkan Kalda í ísskápnum. Þessa afurð rakst ég í fyrsta sinn á í ríkinu seinnipartinn – og þetta er dúndurbjór! Það getur vel verið að ég sé að brjóta lög um áfengisauglýsingar með þessu – en þið sem lesið þessa síðu og kunnið að meta bragðmikinn tékkneskan bjór, farið í næstu íTVR-verslun og kaupið þennan bjór. Þetta er fullorðins!
Fyrir utan þessa fastagesti luma ég á tveimur tegundum af belgískum Chimay – sem er besti bjór í heimi. Bjórgæðingarnir meta þann með bláa miðanum meira (og hann er vissulega góður) en ég er sökker fyrir standardnum, þeim með rauða miðanum. Stöku sinnum kaupi ég mér þriðju týpuna, þann hvíta – en þótt hann sé góður eru hinir enn betri. Verðið er bara algjör geðveiki fyrir svona litlar flöskur. Helv. áfengisgjaldið fer svona með belgísku bjórana.
Bjórinn í flöskunni: dökkur Kaldi
Andinn í glasinu: Ardbeg
Tónlistin í græjunum: Morrissey, Bona Drag.
Megi Moggabloggið sötra Egils Gull.