Jæja. Þá er útgáfu Múrsins lokið.
Sjálfur átti ég á sínum tíma hugmyndina að því að ráðast í að stofna pólitískt vefrit og var meira að segja búinn að ákveða nafnið áður en ég fór að hafa orð á þessu við aðra. Kveikjan að Múrnum var sú staðreynd að ég var farinn að eyða sífellt meiri tíma á hverjum degi í að ergja mig á ruglskrifum eða -umfjöllun um pólitík. Öll sú orka sem maður var farinn að setja í að skrifa pirringslega tölvupósta um þessi efni þurfti að finna sér jákvæðari farveg.
Ég hafði í sjálfu sér ekki hugmynd um neitt sem sneri að hinni tæknilegu hlið málsins og talaði því fyrst við Palla Hilmars – sem er tölvunörd, en við höfum verið vinir frá því í gaggó. Ég var ekki viss um að anarkistinn Páll myndi eiga mikla samleið með sósíalistunum sem ég sá fyrir mér í ritstjórn og þess vegna var ekki ljóst hvort hann myndi koma inn í hópinn eða bara hjálpa okkur að ýta þessu úr vör. Þessar áhyggjur urðu óþarfar og góður vinskapur tókst milli Palla og allra hinna í hópnum, þótt auðvitað hafi menn orðið misnánir.
Um þessar mundir bjuggum við Steinþór Heiðarsson í sömu blokk á Hringbrautinni, hittumst oft og ræddum um pólitík. Við Sverrir Jakobsson vorum í miklu sambandi og sátum langdvölum á Næsta bar. Kolbeinn og írmann voru sömuleiðis augljósir kostir í þessa fyrstu ritstjórn.
írmann rekur söguna vel í kveðjugreininni. Hann, ég og Palli hættum fyrstir í ritstjórninni – en þá var Kata Jakobs búin að bætast í hópinn fyrir allnokkru. Á þeim tímapunkti töluðum við Palli fyrir því að vefritið yrði lagt niður. Ekki vegna þess að við værum á nokkurn hátt ósáttir við Múrinn, heldur einmitt vegna þess að okkur þótti vænt um hann. Ég var alltaf þeirrar skoðunar að við ættum ekki að gefa vefritið út lengur en svo að við hefðum ennþá gaman af þessu – skrifin máttu ekki verða að kvöð.
Hin fjögur í hópnum vildu halda áfram. Nýir einstaklingar komu að Múrnum. Þar var t.d. Finnur Déllsen góð viðbót. Ætli hann eigi ekki drjúgan skerf af bestu greinunum frá þessu síðasta tímabili í sögu vefritsins?
Gullöld pólitísku vefritanna er liðin. Mikilvægi þeirra lá í því að vera fersk rödd í pólitískri umræðu. Þegar Vef-Þjóðviljinn, Múrinn, Kreml og einhverju leyti Frelsi (í ritstjórn Björgvins Guðmundssonar) börðu hvert á öðru fyrir svona fimm árum síðan – rataði umræðan oft inn í hina almennu fjölmiðla. Á pólitískum umræðuþáttum eða dagblöðum var oft vísað í skrif af pólitísku vefritunum, sem skrifuð voru af ungu fólki sem í fæstum tilvikum gegndi miklum embættum innan stjórnmálaflokkanna.
Þessi tími er liðinn. Þótt sum þessara vefrita komi ennþá út, gerist það sárasjaldan að skrif á þeim vettvangi hafi mótandi áhrif á stjórnmálaumræðuna. Þeir dálkar dagblaðanna sem áður sinntu þessum óháðu pólitísku vefritum eru nú helgaðir vefskrifum atvinnustjórnmálamanna – þingmanna og borgarfulltrúa. Þetta er synd, því atvinnustjórnmálamennirnir hafa næg önnur tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Að sumu leyti hefur bloggið ýtt vefritunum úr sviðsljósinu. Það er líka synd, því styrkur góðs vefrits umfram bloggsíðu felst einmitt í ritstýringunni. Enn hef ég ekki séð það einstaklingsblogg sem nær almennilegu vefriti að gæðum.
Palli rekur á síðunni sinni ýmsa þætti varðandi tæknihlið Múrsins. Endilega kíkið á það. Ég tek undir lokaorðin – Múrspaðarnir eru svo sannarlega ekki hættir. Múrinn er dauður, lengi lifi Múrinn!