Fyrir mörgum árum vorum við Maggi Frelsiskartafla ráðnir til að sjá um ýmsa heildaöflun fyrir sjónvarpsþætti um sögu SíS, sem síðar voru sýndir á Stöð 2. Þetta voru þrír þættir – tveir um upphaf og velmektarár Sambandsins og sá þriðji um endalokin, en við komum sáralítið að þeim hluta.
Við Maggi náðum ágætlega saman í þessu verkefni, þótt áherslurnar væru ólíkar. Ég var mest í því að draga fram skrítin eða sniðug kjúríosítet – kúnstuga auglýsingatexta, frásagnir af áformum SíS sem aldrei urðu og samanburð við erlend samvinnufélög. Magnús datt hins vegar oní mikla útreikninga þar sem hann reyndi að átta sig á vægi einstakra deilda í afkomu SíS – sem var enginn hægðarleikur að teknu tilliti til verðbólgu og flókins bókhalds.
Á ljósi þessa var það rökrétt að ég gerðist safnvörður og dómari í spurningakeppni en Maggi fór í doktorsnám í hagsögu.
Meðal gullmolanna í SíS-sögunni, voru lýsingarnar af fyrstu íslensku kjörbúðinni – sem SíS opnaði í miðborginni fyrir rúmlega hálfri öld. Orðið kjörbúð kom reyndar út úr nafnasamkeppni sem efnt var til meðal almennings. Aðrar uppástungur voru t.d. valtína (þar sem kúnninn velur sjálfur vörurnar og tínir oní körfu). Gárungar stungu upp á nafninu gripdeild.
Meðal þess sem sérstaklega var hampað í SíS-kjörbúðinni, var rafknúin kaffikvörn – þannig að kúnninn gat sjálfur malað kaffibaunirnar og fengið sem ferskast kaffi. Ætli það séu meira en 5-6 ár síðan þetta var aftur kynnt til sögunnar í íslenskum stórverslunum?
Á gær rakst ég auglýsingu í gömlu blaði þar sem nýjungar SíS-verslunarinnar voru sérstaklega dásamaðar. Þar var sérstaklega vakin athygli á hurðinni „sem opnast sjálf“ – og útskýrt að hún væri útbúin sérstökum skynjara sem opnar og lokar eftir því sem viðskiptavini ber að garði. – Skemmtilegt!
Megi Moggabloggið lenda milli stafs og hurðar.