Frank Furedi er frjór höfundur. Ég er alls ekki alltaf sammála honum, en ansi oft hittir hann naglann á höfuðið. Þessi grein eftir hann á Spiked er hvorki stutt né auðlesin, en hún er helvíti góð.
Þetta eru bannfærð sjónarmið. Mantran sem flestallir kyrja gengur út á að það sé svo mikilvægt að „draga fram í dagsljósið“, „opna umræðuna“ og „vekja fólk til umhugsunar“ um skuggahliðar mannlífsins á borð við heimilisofbeldi og níðingsskap. Hver sá sem veltir upp spurningum um hverju við fórnum með því að skapa hræðsluþjóðfélag er hins vegar úthrópaður sem barnahatari.
Á greininni talar Furedi um tilfinningaklám. Af fenginni reynslu þykist ég vita að það hugtak muni sjálfkrafa kalla fram reiðiviðbrögð úr ýmsum áttum. Það verður þá bara að hafa það.
# # # # # # # # # # # # #
Mætti síðdegis á skólanefndarfund í MR. Þar kynnti rektor okkur áætlun um að rífa krossviðarplöturnar af veggjum tveggja kennslustofa og færa kalkhúðina undir þeim í upprunalegt horf. Þessi framkvæmd verður í tilraunarskyni og unnin með styrk frá húsafriðunarsjóði.
Þegar ég sat í skólanefnd sem nemendafulltrúi, 1994-95, var byrjað að tala um að ráðast í þessa framkvæmd. Raunar var hugmyndin ekki ný af nálinni þá. En það hefur tekið meira en áratug að koma henni af umræðustigi á tilraunarstig.
Með þessu áframhaldi verður búið að flá ljóta krossviðinn af og laga veggina eftir þrjátíu ár.
Spurning hvort ekki væri fljótlegra að kveikja í kofanum og fá Vilhjálm borgarstjóra til að lofa því í miðju slökkvistarfi að húsið verði endurbyggt í sömu mynd?
Ef þessi hugmynd verður framkvæmd, væri auðvitað snjallræði að kveikja í Moggablogginu í leiðinni.