Á Mánagötunni eru bækur geymdar í tveimur herbergjum. Annars vegar í stofunni, en hins vegar í bóka/gesta/draslherberginu sem verður vonandi fljótlega skipt upp i tvennt.
Til skamms tíma var bókunum skipt þannig niður á herbergin að í stofunni voru „fínu kilirnir“ – veglegar gjafabækur og ritsöfn eftir hina og þessa. Þetta er augljóslega mjög banalt bókasnobb.
Á dögunum ákváðum við að skipta út einni tegund bókasnobbs fyrir aðra. Nú hafa fínu kilirnir flestallir verið fluttir inn í draslherbergi, en hillurnar þess í stað fylltar af bókum um mannfræði og tæknisögu, fyrst og fremst fræðibækur á ensku í kiljuformi.
Kosturinn við þessa nýju tilhögun er sá að bókahillurnar verða áhugaverðari fyrir gesti – sem geta dundað sér við að rýna í titla sem þeir hafa aldrei heyrt af. Gallinn er sá að núna æpa sumar bækurnar á að maður lesi þær aftur – eða lesi jafnvel í fyrsta sinn…