Kolefnisjöfnun er tískuorð sumarsins. Nú eiga allir að borga þúsundkall til skógræktar í Heiðmörk og geta þá puðrast upp um öll fjöll á tíu gata tryllitækjunum án samviskubits.
Á rökréttu framhaldi af þessu hafa ýmsir stungið upp á annars konar jöfnun – s.s. Dr. Gunni sem skrifaði snjalla Bakþanka í Fréttablaðið þar sem hann stakk upp á því að komið yrði upp vefsíðu þar sem ríka pakkið á Vesturlöndum gæti „lífskjarajafnað“ sig gagnvart þriðja heiminum – þ.e. slett einhverju klinki í fátæku þjóðirnar og haldið áfram að kýla vömbina.
Nú kynni ég til sögunnar nýja tegund jöfnunar: kjaftæðisjöfnun internetsins. Með því gefst fólki sem ver miklum tíma á netinu tækifæri til að kjaftæðisjafna netnotkun sína.
Framkvæmdin er tiltölulega einföld. Hugsum okkur t.d. manneskju sem eyðir miklum tíma á degi hverjum í að skoða Moggablogg. Hver mínúta af slíkum lestri hlýtur að skerða greindarvísitölu viðkomandi og veldur því að andleg orka tapast. Þótt þessi rýrnun á heilastarfseminni skipti kannski ekki miklu máli fyrir hvern einstakling, er um gríðarlega andlega atgervisrýrnun að ræða fyrir þjóðfélagið í heild.
Lausnin er komin fram. Ég á gamla sparisjóðsbók sem er nánast innistæðulaus og ég hef ekki notað í mörg ár. Númerið er: 0311-03-011793 (kt. 080475-3659). Nú getur fólk sem eyðir miklum tíma á Moggablogginu einfaldlega greitt tiltekna upphæð inn á þennan reikning og ég mun í staðinn ráða krakka úr unglingavinnunni til að lesa flóknar og mannbætandi bókmenntir. Þannig geta netfíklar lesið sig í gegnum allar ljósbláu örsögur sjónvarpsþulunnar með góðri samvisku, vitandi að úti í bæ er e-r krakki að berja sig í gegnum Moby Dick…
Kjaftæðisjöfnun er málið! Nú þarf ég bara að finna nafn sem er álíka viðeigandi fyrir þetta átak og Kolviður er fyrir kolefnisjöfnunarverkefnið. Mér var að detta í hug: Fahrenheit 451.