Hlustaði á viðtal við Gísla Martein Baldursson í hádegisfréttum útvarps. Hann lýsti gönguferð sinni meðfram Tjarnarbakkanum, þar sem prúðbúinn maður henti frá sér rækjusamloku, svo hún lenti á borgarfulltrúanum. Taldi Gísli Marteinn þetta vera til marks um sinnu- og hirðuleysi Reykvíkinga almennt.
Rifjaðist þá upp fyrir mér gömul færsla á þessari bloggsíðu – um samfélagslegar eða einstaklingsbundnar skýringar. Kveikjan að henni var frásögn Egils Helgasonar af rækjusamloku sem lenti nánast í hausnum á honum rétt hjá Tjörninni. Egill kaus að grípa til samfélagslegra skýringa á þessari uppákomu, þ.e. að Reykjavík væri sóðaleg borg og að líklega hefði mávur á flugi misst mæjónesbrauðið í stéttina.
Sjálfur varpaði ég fram þeirri tilgátu að um einstaklingsbundna skýringu gæti verið að ræða, þ.e. að það sé eitthvað í fari Egils Helgasonar sem fái annað fólk til að vilja henda rækjusamlokum í hausinn á honum.
Þessi skýring mín virðist nú æ sennilegri í ljósi frásagnar Gísla Marteins. Svo virðist sem snyrtilegur karlmaður á miðjum aldri hafist við í nágrenni Tjarnarinnar, vopnaður rækjusamlokum og kasti þeim í valda einstaklinga.
Megi rækjusamlokuverpillinn grýta Moggabloggið.