Þegar fjölmiðlar á Vesturlöndum vilja hamra á því hvað þessi eða hinn forsetinn í e-u þriðja heims ríkinu sé mikill gerræðisseggur er oft dregið fram að viðkomandi ýmist ætli eða íhugi að biðja þingið um að breyta lögum um hámarksvaldatíma þjóðhöfðingja svo hann geti boðið sig fram eina ferðina enn.
Ég skil mætavel að Bandaríkjamönnum finnist þetta vera algjör skandall. Þar í landi eru ströng ákvæði sem koma í veg fyrir þrotlausar valdasetur forseta. Á kringum síðari heimsstyrjöldina voru settir sérstakir stjórnarskrárviðaukar til að heimila FDR að bjóða sig fram í þriðja og fjórða sinn – en þeir voru snarlega afnumdir síðar.
Það er margt sem mælir með þessari aðferð Bandaríkjamanna, þótt einnig megi finna rök gegn henni.
En hvernig getum við Evrópubúar hneykslast á ráðamönnum sem vilja sitja lengi að völdum? Fæst Evrópuríki hafa reglur sem takmarka þann tíma sem forsetar eða forsætisráðherrar geta verið við völd. Raunar er það talið evrópskum stjórnmálamönnum sérstaklega til tekna að vera þaulsetnir og til marks um styrk þeirra. Þannig hefur maður margoft lesið að Tony Blair hafi skráð sig á blöð sögunnar þegar hann sat lengst allra Verkamannaflokksmanna á forsætisráðherrastóli – og það þótti harlagott þegar Davíð Oddsson var sá forsætisráðherra Evrópu sem lengst hafði verið í embætti.
Skrítið.