Eftir teiknimyndasöguinnkaupin um daginn á ég allar Svals og Vals-bækurnar sem út hafa komið á íslensku, nema eina – „Niður með harðstjórann!“ Það er góð bók og ég verð að eignast hana. Raunar langar mig líka í betur farin eintök af 3-4 bókum, en ætla þó að stilla mig.
# # # # # # # # # # # # #
Það eru fleiri en Svalur og Valur sem berjast gegn harðstjórum. Egill Helgason skrifar á síðuna sína færsluna „Afsakanir fyrir stríðsglæpamenn“ og birtir með stóra mynd af Milosevic. Þar fjallar samfélagsrýnirinn um þá áráttu vinstri manna að bera í bætifláka fyrir glæpi Serba í Júgóslavíustríðinu.
Kveikjan að þessari stuttu færslu er kvikmyndasýning í Friðarhúsinu kl. 20 á fimmtudagkvöld, þar sem sýnd verður heimildarmynd um Júgóslavíustríðið og aðdraganda þess. Egill segir myndina setja fram alls kyns fáránlegar kenningar um stríðið. Hann hefur raunar ekki séð myndina sjálfur – sem minnir nokkuð á umfjöllun hans um Menningarnóttina sem hann hefur aldrei tekið þátt í – en vísar í heimasíðu þar sem hún er gagnrýnd.
Það hefði raunar verið hægðarleikur fyrir Egil að finna fleiri vefsíður með gagnrýni á myndina. Líklega er ógjörningur að gera óumdeilda mynd um Júgóslavíustríðið þar sem þrefað er um léttvægustu atriði. (Prófið bara að slá upp Wikipediu-greinum um stríðið og lesa langhundana í athugasemdadálknum.)
Margt af gagnrýninni er augljóslega réttmætt. Það varðar flest umfjöllunina um stríðið sjálft og grimmdarverk sem voru (eða voru ekki) framin meðan á því stóð. Sú umfjöllun geldur fyrir nálægt barnslega trú kvikmyndagerðarmannanna á að í sífellu hafi verið logið upp á Serba. Sömuleiðis er víða logið með þögninni og augljósum spurningum sleppt.
Þessir hlutar myndarinnar bæta litlu sem engu við það sem maður vissi fyrir eða taldi sig vita og það eru jafnframt þeir sem hafa verið gagnrýndir hvað helst. En megingallinn við þá gagnrýni sem ég hef rekist á um þessa mynd er að hún snýst einkum um hluti sem EKKI er sagt frá í myndinni (en hefðu vissulega mátt vera þar) en ekki það sem þó er fjallað um.
Mikilvægi myndarinnar felst í umfjölluninni um það sjálfan aðdraganda stríðsins. Þar eru mjög áhugaverðir hlutir dregnir fram og fv.háttsettir vestrænir ráðamenn veita mjög mikilvægar upplýsingar. Þetta er sá hluti myndarinnar sem á ótvírætt erindi til fólks og sem er mælt með í kynningunni á Friðarvefnum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við í SHA höfum fengið á okkur gagnrýni fyrir að sýna heimildarmyndir í Friðarhúsi. Sjálfur lít ég ekki svo á að með því að standa fyrir sýningu á mynd sé félagið að lýsa sig sammála boðskap hennar í einu og öllu. Sjálfum finnst mér þær heimildarmyndir lærdómsríkastar sem ég er ekki sammála að öllu leyti.
Annars er það óheppni hjá Agli Helgasyni að velja mynd af Milosevic með færslunni sinni, því höfundar myndarinnar nota hann einmitt sem blóraböggul fyrir þeim ódæðum Serba sem þeir viðurkenna. Þannig koma þeir sér hjá því að horfast í augu við það þjóðernisofstæki sem gegnsýrði alltof marga Serba og sem margir hafa ekki viljað horfast í augu við. Að því leyti er það örugglega þægileg lausn fyrir marga serbneska þjóðernissinna að kenna bara Milosevic um öll ósköpin og sleppa þannig upgjöri við fortíðina.
# # # # # # # # # # # # #
Frá og með 1. september er ég kominn með skrifstofu í Reykjavíkurakademíunni. Fagna því allir góðir menn!